Undir 20 ára lið kvenna vann í dag til bronsverðlauna á Norðurlandamótinu í Södertalje eftir að hafa unnið Danmörku í úrslitaleik, 73-52. Í heild vann liðið þá þrjá leiki á mótinu og tapaði tveimur, en í efstu tveimur sætunum voru Finnland og Svíþjóð.
Fyrir leik
Ísland hafði endað í þriðja sæti riðlakeppninnar, Danmörk því fjórða og því léku liðin tvö upp á bronsverðlaun mótsins. Ísland var einum sigurleik fyrir ofan Danmörku í riðlinum, bæði höfðu liðin unnið Noreg, en Ísland hafði lagt Danmörku í innbyrðisviðureign liðanna þann 29. síðastliðinn, 66-58. Stigahæst fyrir Ísland í þeim leik var Agnes María Svansdóttir með 17 stig og Tinna Guðrún Alexandersdóttir bætti við 15 stigum.
Byrjunarlið Íslands
Elísabeth Ýr, Vilborg, Tinna Guðrún, Eva Wium og Agnes María.
Gangur leiks
Íslenska liðið fór vel af stað í leiknum. Frábær byrjun fyrirliðans Vilborgar Jónsdóttur skipti gríðarlegu máli, en hún stal 4 boltum og skoraði 10 af fyrstu 12 stigum íslenska liðsins. Þegar fyrsti fjórðungur var á enda leiddu þær með 15 stigum, 27-12. Ísland bætir svo enn við forskot sitt undir lok fyrri hálfleiksins, en þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik var munurinn 23 stig, 42-19.
Vilborg gjörsamlega stórkostleg í þessum fyrri hálfleik með 15 stig, 4 fráköst, 5 stoðsendingar, 6 stolna bolta og 75% skotnýtingu. Þá var Tinna Guðrún komin með 18 stig.
Danmörk nær aðeins að halda í við íslenska liðið í upphafi seinni hálfleiksins, en aldrei þannig að þær ógni því mikið að gera þetta að leik. Ísland heldur orkunni uppi og forystu sinni í kringum 20 stigin út þriðja leikhlutann, 62-45. Í lokaleikhlutanum gerir liðið það sem þarf til þess að sigla að lokum mjög svo öruggum sigur og bronsverðlaunum í höfn, 73-52.
Að leik loknum var Elísabeth Ýr Ægisdóttir valin í fimm leikmanna úrvalslið mótsins, en það er kosið af þjálfarateymum liðanna á mótinu.
Atkvæðamestar
Vilborg Jónsdóttir var frábær fyrir Ísland í leiknum með 19 stig, 8 fráköst, 8 stoðsendingar og 8 stolna bolta. Tinna Guðrún Alexandersdóttir var þó stigahæst með 31 stig.
Hvað svo?
Við tekur Evrópukeppnin, en þetta árið fer hún fram í Craiova í Rúmeníu dagana 28. júlí til 6. ágúst.
Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil