Í kvöld fer fram sögulegur leikur þegar FSu og Þór Þorlákshöfn mætast í sínum fyrsta úrvalsdeildarleik! Liðin mætast þá í fjórðu umferð Domino´s-deildar karla en þó bæði lið hafi áður leikið í úrvalsdeild þá hafa þau ekki verið á sama tímabili í deildinni fyrr en nú.
Von er á miklum slag á Selfossi því nýliðar FSu eru enn á höttunum eftir sínum fyrsta deildarsigri en Þórsarar komust á sporið er þeir flengdu Tindastól í Icelandic Glacial Höllinni í síðustu umferð.
Allt að því sárgrætileg úrslit hafa verið uppi á borðum hjá FSu sem töpuðu með einu stigi í fyrsta leik gegn Grindavík, með 10 stigum gegn ÍR í öðrum leiknum og fjórum stigum í Ásgarði. Forvitnilegt verður að sjá hvernig liðin mæta til leiks, Þórsarar með kassann úti eftir Stóla-sigurinn og FSu hungraðir í fyrsta sigur.
Hvernig sem fer þá er þetta fyrsti Suðurlandsskjálfti liðanna í úrvalsdeild, til lukku með þann áfanga Sunnlendingar!
Mynd/ Hörður Tulinius