spot_img
HomeFréttirBreiðablik hafði betur á heimavelli

Breiðablik hafði betur á heimavelli

Breiðablik hafði betur gegn Þór Akureyri í Smáranum í kvöld, 58-55. Hjá Breiðablik var Aníta Rún Árnadóttir stigahæst með 21 stig & 6 fráköst og Isabella Ósk Sigurðardóttir bætti við 6 stigum ásamt því að taka 14 fráköst og verja 2 skot. Hjá Þórsurum var Rut Herner Konráðsdóttir með 15 stig & 6 fráköst og Fanney Lind G. Thomas var með 13 stig & 12 fráköst.

 

Það var vel mætt í Smárann í kvöld og stuðningsmenn beggja liða á svæðinu. Stelpurnar áttu fyrri leikinn og heimkonur fóru vel af stað. Blikarnir komust í 9-0 og það tók gestina næstum 6 mínútur að koma sér á blað en fyrsta stig þeirra kom af vítalínunni. Það hafði þá loksins lifnað yfir Þórsurunum söxuðu á forystuna sem Blikarnir náðu á fyrstu mínútunum. Það var lítið skorað allan leikinn en staðan var 14-8 fyrir Breiðablik eftir 1. leikhlutann.

 

Gestirnir frá Akureyri byrjuðu 2. leikhluta á því að jafna leikinn með 6-0 áhlaupi en eftir það tók Breiðablik aftur stjórn á leiknum og áttu einungis eftir að setja tvö stig til viðbótar allan leikhlutann. Blikarnir héldu aftur af Þórsurum með góðri vörn en skoruðu í raun heldur fá stig sömuleiðis. Leikhlutinn fór 13-8 og staðan í hálfleik því 27-16 fyrir heimakonum.

 

 

Eitthvað var sagt í klefa Þórsara í hálfleik sem kom gestunum í betri gír. Gestirnir sóttu mun harðar að körfunni og lokuðu oft algjörlega á Blikana varnarmegin. Breiðablik stóðst þó mesta áhlaupið og gaf aldrei forystuna af hendi þrátt fyrir að missa hana niður í einungis eitt stig á einum tímapunkti. Leikhlutann sigruðu Þórsarar 15-20 og staðan komin í 42-37 fyrir Blikum.

 

Lokaleikhlutinn fór jafn af stað, liðin skiptust á körfum og þrátt fyrir að munurinn í stigaskorinu sveiflaðist þá hélt Breiðablik forystunni áfram. Lokamínúturnar voru hins vegar gífurlega spennandi. Þórsarar áttu virkilega góðan kafla, söxuðu á forystuna og þegar 15 sekúndur voru eftir á klukkunni skildi aðeins eitt stig liðin að. Blikar fór þá á vítalínuna en hvorugt vítið fór niður. Það var þá Isabella Ósk Sigurðardóttir sem steig upp og reif niður frákastið fyrir Blikana og kom þar með í veg fyrir að Þórsarar fengju tækifæri á skyndisókn. Fanney Lind braut næst á Isabellu sem fór á vítalínuna og gerði sér lítið fyrir og setti niður bæði vítin og kom Blikum aftur þremur stigum yfir þegar aðeins 5 sekúndur voru eftir af leiknum. Þórsarar náðu ekki að koma boltanum niður í loka sókninni og Breiðablik vann því leikinn, 59-55.

 

Breiðablik-Þór Ak. 59-55 (14-8, 13-8, 15-21, 17-18)

Breiðablik: Aníta Rún Árnadóttir 21/6 fráköst, Berglind Karen Ingvarsdóttir 13/5 fráköst, Telma Lind Ásgeirsdóttir 10/8 fráköst/5 stolnir, Isabella Ósk Sigurðardóttir 6/14 fráköst, Elín Sóley Hrafnkelsdóttir 5, Kristín Rós Sigurðardóttir 2, Guðrún Edda Bjarnadóttir 2, Inga Sif Sigfúsdóttir 0, Bergdís Gunnarsdóttir 0, Arndís Þóra Þórisdóttir 0, Elín Kara Karlsdóttir 0, Hlín Sveinsdóttir 0. 

Þór Ak.: Rut Herner Konráðsdóttir 15/6 fráköst, Fanney Lind G. Thomas 13/12 fráköst, Bríet Lilja Sigurðardóttir 7, Árdis Eva Skaftadóttir 6, Erna Rún Magnúsdóttir 6/8 fráköst/5 stolnir, Heiða Hlín Björnsdóttir 6, Helga Rut Hallgrímsdóttir 2/11 fráköst, Kristín Halla Eiríksdóttir 0, Giulia Bertolazzi 0, Gyða Valdís Traustadóttir 0, Sædís Gunnarsdóttir 0, Linda Marín Kristjánsdóttir 0. 

Fréttir
- Auglýsing -