spot_img
HomeFréttirMustad-krókarnir fiskuðu ekki vel í kvöld!

Mustad-krókarnir fiskuðu ekki vel í kvöld!

Búist var við jöfnum og spennandi leik þegar Íslandsmeistarar Snæfells mættu grindvískum stöllum sínum í Mustad höllinni í Grindavík í kvöld og eftir jafnan fyrri hálfleik virtist það ætla verða raunin en í seinni hálfleik mættu einungis gestirnir til leiks og unnu verðskuldaðan sigur, 60-83.

 

Fyrri hálfleikur var eins og áður sagði jafn á flestum tölum og skiptust liðin á um að hafa forystuna en Snæfell gekk í hálfleiks-te-ið með 4. stiga forystu, 35-39.  Whitney Frazier bar þungann af stigaskorun heimakvenna og var komin með 18 stig í hálfleik og virtist geta skorað þegar hana langaði til.  Hjá gestunum dreifðist skorið á mun fleiri leikmenn en þær Gunnhildur Gunnars og Haiden Denise Palmer voru stigahæstar með 14 og 9 stig.

 

Eins og áður sagði mættu nánast bara gestirnir til leiks og völtuðu yfir heimastúlkur sem skoruðu einungis 11 stig í 3. leikhluta á móti 19 stigum Snæfells.  Munurinn því 12 stig fyrir lokaleikhlutann en allir sem eitthvað vit þykjast hafa á íþróttinni vita að það er enginn munur.  En trú heimasæta Daníels virtist víðs fjarri og virtust þær gefast upp allt of fljótt.  Baráttan engin og hirtu gestirnir hvert sóknarfrákastið af fætur öðru og kafsigldu lokafjórðunginn, 14-25 og leikinn því 60-83.  25 stig fengin á sig í seinni hálfleik segir ansi ítarlega sögu um vörn Snæfellsdama.

 

Um flottan liðssigur var að ræða hjá Snæfellingum en þær sem sköruðu fram úr voru Gunnhildur með 28 framlagspunkta og Haiden með 20.  Athyglisvert að sjá +/- dálkinn hjá þeim stöllum en þar snýst taflið við, Haiden með +33 en Gunnhildur „einungis“ 13.

 

Hjá Grindvíkingum var það í raun bara Whitney sem var með lífsmarki og það eiginlega bara í fyrri hálfleik.  Hún hélt áfram með sín 18 stig síðan úr fyrri hálfleiknum langt inn í seinni hálfleikinn en hún fékk varla boltann sem heitið gat.  Hún endaði með 28 stig og 17 fráköst.  Lilja Sigmars barðist sem fyrr eins og ljón og endaði með 9 stig og 6 fráköst.  Af nýju leikmönnunum var frekar lítið að frétta en Ingunn Embla sem lék sinn fyrsta leik kom einna best út úr honum og setti m.a. 2 flotta þrista í fyrri hálfleik en hún mátti ekki við margnum í þeim seinni.  Ef fólk vill rýna í hina athyglisverðu +/- tölfræði þá kom hún einmitt best út úr henni með +12.  Sigrún Sjöfn hefur séð betri daga en hún tapaði 7 boltum í kvöld.  Helga Einars þurfti að fara af leikvelli undir lokin þar sem hún fékk þungt högg á andlitið og var flutt með sjúkrabíl.  Ekki vitað á þessari stundu hversu alvarleg meiðsl hennar eru.

 

Daníel: „Þær eru mjög grimmar í vörninni í byrjun 3. leikhluta og við bregðumst illa við því.  Að sama skapi fóru þær að setja skotin sín niður fyrir utan 3-stiga línuna en þær hittu mjög vel úr þeim í kvöld og við náðum okkur aldrei úr því „slump-i“ sem við lentum í.  Vörnin okkar var hundléleg í seinni hálfleik sem leiddi af sér lélega sókn.  Ég vil ekki meina að við höfum gefist upp en við fylgdum ekki þeirri áætlun sem sett var upp“

 

Eru tveir tapleikir í röð áhyggjuefni?  „Nei, það tel ég ekki.  Við áttum góða kafla í síðasta leik en sá góði kafli kom aldrei í kvöld og við þurfum bara að skoða ástæðuna fyrir því strax á morgun“

 

Nú vantaði fyrirliðann, Petrúnellu Skúladóttur, er það ástæðan fyrir þessu stóra tapi?  „Nei, við erum með 12 flottar stelpur sem geta allar spilað.  Petrúnella er vissulega lykilleikmaður hjá okkur en það var ekki ástæðan fyrir því að við klúðruðum leiknum í kvöld“

 

Ingi Þór:  „Við vorum ekki nógu áræðnar í fyrri hálfleik og 1 skrefi á eftir þeim í öllum færslum, bæði í sókn og vörn en komum mjög grimmar úr leikhléinu og náðum að stela mörgum boltum og fengum auðveldar körfur, skoruðum 8-0 í byrjun og gáfum tóninn og stjórnuðum leiknum eftir það. 

 

Var það kannski vörnin í seinni hálfleik sem skóp sigurinn?  „Við sýndum geðveika baráttu og samvinnu í vörninni í seinni hálfleik, þvinguðum Grindvíkinga í erfiða stöðu og náðum að stela boltum.  Við hittum síðan mjög vel í seinni hálfleik, vorum að fá góð skot, það var gott flæði og leikmenn tilbúnir að senda aukasendinguna.  Þannig viljum við spila, þannig erum við hættulegar en það erum við ekki þegar við förum 1 á 1.

 

Ánægður með byrjunina? „Já, 4-1 er sterk byrjun og við ætlum okkur að blanda okkur í baráttuna í vetur.  Nei, við ætlum ekki að verja dolluna heldur sækja þá dollu sem verður í boði!“

 

Texti: Sigurbjörn Daði Dagbjartsson

 

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -