Leikur Hamars og Stjörnunnar í 6. umferð Domino's deildar kvenna sem fram fór í Hveragerði í gærkvöldi var jafn lengst af. Stjarnan er sterkara liðið á pappírnum en þær náðu aldrei að hrista Hamarsstúlkur af sér fyrstu 30 mínútur leiksins.
Í fjórða hluta hins vegar skelltu Stjörnustúlkur í lás og gáfu hressilega í. 5 mínútna stigalaus kafli hjá Hamri í fjórða hluta varð þeirra banabiti. Hamar skoraði aðeins 7 stig í fjórða hluta en á meðan sölluðu þær frá Garðabæ niður 24 stigum lönduðu öruggum sigri 64-81.
Chelsie Schweers átti stórleik fyrir Stjörnuna gegn sínum gömlu liðsfélögum með 41 stig og 8 fráköst, en hún skaut þar að auki 7/12 úr þristum í leiknum. Margrét Kara Sturludóttir átti einnig stórleik fyrir sitt lið 16 stig, 25 fráköst, 5 stoðsendingar og 3 stolna bolta.
Suriya McGuire leiddi Hamar með 20 stig og 4 varin skot og Nína Jenný Kristjánsdóttir kom næst með 14 stig og 7 fráköst.
Stjarnan hefur nú unnið 2 af 6 leikjum sínum í vetur en Hamar tapað öllum sínum.
Mynd úr safni: Chelsie Schweers var með 41 stig gegn sínum gömlu liðsfélögum í Hamri. (Bára Dröfn)