Þrír leikir verða leiknir í kvöld í 5. umferð Domino's deildar karla. Njarðvík fær Tindastól í heimsókn en þessi lið léku um sæti í 16 liða úrslitum Powerade bikarsins á mánudaginn var, einnig í Ljónagryjunni. Njarðvík hafði sigur þá á lokasekúndunum með skoti frá Hauki Helga en Tindastólsmenn fá tækifæri til að hefna fyrir það í kvöld.
Snæfell fær sjóðheitt taplaust topplið Keflavíkur í heimsókn og er erfiður leikur þar í vændum fyrir Snæfellinga sem eru 1-3 eftir fjóra leiki. Þeir eru þó til alls líklegir eftir óvæntan sigur á Grindavík í 4. umferð.
Stjarnan og Grindavík hita svo upp fyrir 16 liða úrslitin í Powerade bikarnum með heimsókn Grindavíkur í Ásgarð. Stjörnumenn segjast vera búnir að stilla saman strengina betur eftir óvænt tap fyrir ÍR í 4. umferð en Grindvíkingar fengu væna magalendingu í tapinu fyrir Snæfelli á heimavelli.
Í 1. deild mætast Valur og Hamar í Vodafonehöllinni á Hlíðarenda.
Allir leikir hefjast kl. 19:15.
Mynd úr safni: Valur Orri og félagar í Keflavík eru á mikilli siglingu í Domino's deild karla. (Davíð Eldur)