spot_img
HomeFréttirHaukar halda sigurgöngunni áfram

Haukar halda sigurgöngunni áfram

Haukar eru enn ósigraðir í Domino's Deild kvenna en þær unnu góðan sigur á liði Vals í kvöld í Vodafone höllinni. Helena Sverrisdóttir fór fyrir sínu liði með 16 stig, 12 fráköst og 10 stoðsendingar. Karisma Chapman var lang atkvæðamest í liði Vals með 36 stig og 18 fráköst.

 

Valskonur áttu fyrstu 7 stig leiksins en eftir það spilaðist leikurinn jafnt og Haukar unnu upp muninn á nokkrum mínútum. Það var nokkuð mikið reynt við þriggja stiga skot í leiknum en þau duttu nokkuð vel í 1. leikhlutanum.

 

Haukar byrjuðu 2. leikhluta betur en heimakonur og komust níu stigum yfir á fyrstu mínútunum. Valsarar voru þó ekki á því að gefast upp svo auðveldlega og gerðu sér lítið fyrir og komust aftur yfir í leiknum. Ekki spurning að þetta var besti leikhlutinn í leiknum en hann fór 20-20 og staðan í hálfleik því 35-36 Haukum í vil.

 

 

Það mætti segja að úrslit leiksins hafi ráðist í 3. leikhlutanum. Það mætti einnig segja að það hafi verið leikhluti þriggja stiga skotanna. Haukar reyndu við 15 þrista og þar af fóru 4 þeirra niður en Vals megin fóru 3 af 9 reyndum í körfuna. Það var þó ekki spurning að Haukarnir mættu betur stemmdar úr klefanum. Leikhlutinn fór 18-29 fyrir Haukum og staðan 53-65.

 

Leikurinn varð aftur spennandi á köflum í 4. leikhluta en það var eini leikhlutinn sem Valur vann í leiknum. Heimakonur gerðu góða atlögu að forystu gestanna en það dugði einfaldlega ekki til að vinna upp muninn úr 3. leikhluta. Það komu einungis 3 af 73 stigum Vals af bekknum og mikið mæddi á Karisma Chapman að halda stigaskorinu uppi hjá sínu liði. Leikhlutinn fór 20-14 og endaði leikurinn því 73-79 og Haukar enn ósigraðar.

 

Valur-Haukar 73-79 (15-16, 20-20, 18-29, 20-14)

Valur: Karisma Chapman 36/18 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 12/9 fráköst/6 stoðsendingar, Dagbjört Samúelsdóttir 10, Hallveig Jónsdóttir 8, Bergþóra Holton Tómasdóttir 4, Sóllilja Bjarnadóttir 3, Margrét Ósk Einarsdóttir 0, Bylgja Sif Jónsdóttir 0, Jónína Þórdís Karlssdóttir 0, Helga Þórsdóttir 0, Ragnheiður Benónísdóttir 0, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 0. 

Haukar: Helena Sverrisdóttir 16/12 fráköst/10 stoðsendingar, Pálína María Gunnlaugsdóttir 15/6 fráköst, Sylvía Rún Hálfdanardóttir 15/5 fráköst, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 11, Sólrún Inga Gísladóttir 8/5 fráköst, Eva Margrét Kristjánsdóttir 6/5 fráköst, Dýrfinna Arnardóttir 4, Þóra Kristín Jónsdóttir 2/6 fráköst, María Lind Sigurðardóttir 2, Magdalena Gísladóttir 0, Hanna Þráinsdóttir 0, Rósa Björk Pétursdóttir 0. 

Fréttir
- Auglýsing -