spot_img
HomeFréttirÞolinmæðisvinnuleikur Snæfells og Keflavíkur

Þolinmæðisvinnuleikur Snæfells og Keflavíkur

Ósigrað topplið Keflavíkur fór til Stykkishólms og mættu Snæfelli sem situr í 10. sæti deildarinnar. Oft hafa leikir þessara liða verið skemmtilegir og á alla vegu og því ekki við öðru að búast þennan leikinn. Sigurður Þorvaldsson kom inn í lið Snæfells að nýju eftir að hafa hvílt í bikarleik þeirra á mánudag. Keflavík sigraði leikinn 97-86 sem gefur ekki heildarmyndina af spennunni sem ríkti í fjórða leikhluta en þeir halda fast í toppsætið á meðan Snæfell er áfram í 10. sæti.

 

Snæfellingar fengu það hlutskipti í leiknum að elta og elta, taka spretti og komast nær en Keflavík hafði í raun alltaf svör. Þolinmæðisvinna Snæfells borgaði sig sumpart, þrátt fyrir tap, því þeir jöfnuðu strax í upphafi fjórða hluta 73-73 og komust svo yfir 82-81 eftir þrist frá Sherrod Wright sem skoraði 39 stig í leiknum. Mikil batamerki með hverjum leik og ef Snæfellsliðið ætlar að spila svona áfram þá tikka stigin í hús. Sigurður Þorvaldsson fór útaf með fimm villur í lokin og endaði með 15 stig. Stefán Torfason var gera góða hluti með 7 stig 11 fráköst og 3 varin skot. Vert er þó að minnast á Viktor Alexandersson sem skoraði 10 stig og virðist ætla að næla sér í fleiri mínútur ef fram sem horfir.

 

Keflvíkingar spiluðu af yfirvegun og létu ekki spretti Snæfells stuða sig og áttu fínan dag varnarlega og unnu frákastabaráttuna í þessum leik einnig. 46 gegn 38. Guðmundur Jónsson, sem skoraði 21 stig í leiknum og hvert þeirra á mikilvægum augnablikum, fór þar fremstur í flokki ásamt Earl Brown sem var grimmur í fráköstunum en kappinn sá skoraði 29 stig og tók 19 fráköst. Keflavík er spila vel um þessar mundir en liðið virðist ætla sér að blása á allar spár svona í upphafi. Körfur frá Magnúsi Gunnarsyni og Traustasyni voru mikilvægar þegar á reyndi en sá fyrrnefndi var með 12 stig og síðarnefndi 10 stig. Valur orri Valsson stjórnaði leiknum af festu, var með 6 stig 5 fráköst og 9 stoðsendingar.

 

Guðmundur Jónsson opnaði leikinn með þremur og Austin Bracey svaraði. Keflavík tók þá forskotið 7-15 og Ingi Þór brá á það ráð að ræða við liðið. Keflvíkingar fengu engu að síður að ganga auðveldu leiðina að körfunni og komust í 15-26 með góðu skoti Vals Orra. Varnarleikur Snæfells var þeirra akkilesarhæll framan en þeir mönnuðu sig upp og létu skarar skríða og var staðan 25-29 eftir fyrsta fjórðung.

 

Sherrod Wright smellti niður þrist og leikurinn varð strax orðinn eins stigs 28-29 og kappinn kominn með 18 stig. Þegar staðan var 31-34 og Snæfell að rembast við að elta var alveg sama hvar var skotið ekkert ofan í, Keflavík tóku fráköstin og komust í 31-41. Snæfell sóttu aftur og nálguðust 46-50 en voru oft að gera sér erfitt fyrir með klaufaskap til að gera þetta extra sem vantaði á móti góðri vörn Keflavíkur sem þáði lausu boltana. Staðan í hálfleik 48-56. Sherrod með 22 stig og Sigurður 10 stig fyrir Snæfell en hjá Keflavík var Earl kominn með 16 stig og Magnús og Guðmundur með 10 stig hvor.

 

Guðmundur Jónsson opnaði á þremur copy/paste frá fyrstu körfunni. Snæfell var að eyða orku í að elta og voru 8 stigum undir 56-64 um miðjan þriðja hluta. Leikurinn var að hlaupa á þessum sprettum en Snæfellingar náðu ekki að komast nema 4 stig nær og svo var munurinn orðinn 10 stig fljótt aftur. Heilt yfir voru Keflvíkingar að halda vel á spöðunum og halda Snæfelli frá sér. 61-68 var staðan þegar 3:30 voru eftir af þriðja hluta. Sherrod kom Snæfelli í tvö stig 66-68 mínútu síðar og Snæfellsmenn komu með þessar sprengjur öðru hvoru og staðan var 70-73 eftir þriðja hluta.

 

Austin Bracey jafnaði 73-73 og Snæfellingar búnir að vera ótrúlega þolinmóðir að elta. Það var orðið funheitt satt best að segja í upphafi fjórða hluta. Staðan var 80-81 og menn farnir að spennast upp á öllum stólum í húsinu. Snæfell fyrsta skipti yfir 82-81 Sherrod er kominn með 39 stig. 2:30 eftir og Keflavík tóku leikhlé og staðan 84-85 Snæfell átti boltann Óli Ragnar fer svo á línuna og jafnar 85-85. Sigurður Þorvaldsson var kominn með 5 villur þegar Keflavík herða á sér og staðan 85-90 þegar 1:15 eru eftir, það virtist banabiti Snæfells sem gáfu eftir og Keflavík sigraði 87-96.

 

Texti: Símon B Hjaltalín.

Myndasafn:  Sumarliði Ásgeirsson

Fréttir
- Auglýsing -