spot_img
HomeFréttirEndurtekið efni í Ljónagryfjunni

Endurtekið efni í Ljónagryfjunni

Í kvöld áttust við í Ljónagryfjunni heimamenn í Njarðvík og Tindastóll en þessi lið áttust við á mánudaginn var á sama stað, þá í 32 liða úrslitum Powerade bikarkeppninnar. Í þeim leik var allt í járnum til loka og svo fór að Njarðvík sló Tindastól út úr bikarnum með sigurkörfu Hauks Helga Pálssonar á lokasekúndum þess leiks.

 

Í kvöld var hinsvegar leikið í 5. umferð Domino‘s deildarinnar þar sem bæði lið voru með 4 stig fyrir umferðina og liðin í leit af sigri eftir dapurt gengi að undanförnu.

 

Hjá Njarðvík var stillt upp í byrjun: Simmons, Ólafur Helgi, Jón Arnór, Haukur Helgi og Logi Gunnars.

 

Tindastóll stillit upp: Ingvi Rafn, Pétur Birgis, Helgi Rafn, Lewis og Flake.

 

Leikurinn byrjaði á háu tempói þar sem bæði lið þreifuðu fyrir sér. Haukur Helgi var sterkur fyrir heimamenn og setti 4 stig snemma leiks en Stólarnir voru duglegir að finna hinn síunga Darrell Flake undir körfunni sem var að klára vel. Haukur Helgi og Darrel Lewis áttu skemmtilegar rispur á hvorn annan bæði í vörn og sókn en Lewis svaraði stigum Hauks í byrjun með að setja 4 af þeim sjálfur.  Bæði lið voru að klikka á opnum skotum fyrir utan og var langt liðið á fyrsta leikhluta þegar fyrsta þriggja stiga karfan leit dagsins ljós en hana átti hinn ungi Jón Arnór Sverrisson og minnkaði muninn fyrir Njarðvík í 13-14. Hjörtur og Maciej komu sterkir inn af bekknum hjá heimamönnum í lok leikhlutans og kom sá síðarnefndi þeim í 17-14 með góðu gegnumbroti. Tindastóll svaraði í næstu sókn og endaði 1. leikhluti 17-16. 

 

Bæði lið að klikka úr opnum skotum í þessum fyrsta leikhluta og mikið af mistökum litu dagsins ljós í sóknarleik liðanna. Hjá Njarðvík var Jón Arnór með 5 stig og Haukur Helgi 4 stig eftir leikhlutann. Hjá Tindastól voru þeir félagar Flake og Lewis með 6 stig hvor.

 

Það sama var upp á teningnum í 2. leikhluta, en bæði lið voru mikið að tapa boltanum og einkenndist leikurinn af klaufalegum sóknum sem enduðu oftar en ekki með lélegum skotum. Maciej hélt áfram að spila vel og setti niður þrist og kom Njarðvík í 22-16. Tindastólsmenn voru alls ekki sannfærandi í sínum varnarleik í öðrum leikhluta og tókst þeim ekki að halda aftur af Simmons í liði Njarðvíkur sem hirti ófá sóknarfráköstin. Njarðvíkingar náðu aldrei að slíta sig almennilega frá gestunum fyrr en í lok leikhlutans þegar Logi setti niður þrist og kom Njarðvík í 31-22. Jerome Hill lagaði stöðuna í 31-24 en hann átti eftir að koma talsvert við sögu í leiknum. Hjalti Friðriksson setti laglega körfu í kjölfarið fyrir heimamenn og þeir leiddu í hálfleik 33-24.

 

Í hálfleik voru stigahæstir hjá Njarðvík; Logi Gunnars með 7 stig, Haukur Helgi 6 stig/5 fráköst/3 villur en Haukur meiddist í öðrum leikhluta og spilaði lítið það sem eftir lifði leiks. Þeir Jón Arnór og Maciej með 5 stig hvor. Simmons var með 8 fráköst. 

 

Hjá Tindastól voru stigahæstir; Darrel Lewis með 8 stig/6 fráköst og þeir Helgi Rafn og Darrell Flake með 6 stig en sá síðarnefndi nældi sér í sína 3 villu á síðustu sekúndu fyrri hálfleiks.

 

Mikið um tapaða bolta hjá liðunum í fyrri hálfleik, Njarðvík með 12 tapaða og Tindastóll 8. Njarðvík var yfir í frákastabaraáttunni með 28 fráköst á móti 20 hjá Tindastól. Tindastóll var ekki að hitta neitt fyrir utan með 0/11 í þristum.

 

3. leikhluti byrjaði fjörlega en Pétur setti fyrsta þrist gestanna og lagaði stöðuna í 31-27. Í kjölfarið tók við talsverð bið eftir næstu stigum en Pétur setti  niður annan þrist og stöðuna í 33-30 heilum 3 mínútum eftir fyrri körfuna. Liðin skiptust svo á að skora þar sem Maciej og Hjörtur héldu heimamönnum í forystu en hjá Tindastól voru Helgi og Lewis allt í öllu. Jerome Hill vaknaði til lífsins í lok leikhlutans en hann setti 9 stig á stuttum tíma þar af 2 þrista og leiddi Tindastóll fyrir loka leikhlutann 47-50. 

 

Kári hefur eitthvað messað yfir sínum mönnum í hálfleik því þeir skoruðu meira í þriðja leikhluta en í öllum fyrri hálfleik. Að sama skapi var vörn heimamanna afleit í þriðja leikhluta.

 

Stigahæstir eftir 3. Leikhluta hjá Njarðvík; Hjörtur með 12 stig, Logi með 9 stig.

 

Hjá Tindastól; Lewis með 15 stig, Hill með 12 og Flake með 10 stig en hann spilaði lítið í leikhlutanum með 3 villur á bakinu.

 

Í 4. leikhluta héldu liðin áfram sem frá var horfið. Liðin skiptust á að skora þar sem Simmons fór mikinn fyrir heimamenn með mikilli frákastabaráttu ásamt því að setja mikilvæg stig. Tindastóll komst í 51-56 með góðri körfu frá Viðari Ágústs. Logi lagaði stöðuna fyrir heimamenn 55-58 með góðu gegnumbroti og voru áhorfendur farnir að láta í sér heyra, eflaust vitandi í hvað stefndi eftir leikinn á mánudaginn. Logi Gunnars setti niður tvö víti fyrir Njarðvík og kom þeim 2 stigum yfir 64-62 þegar 1:50 var eftir á klukkunni. Spennustigið var hátt og liðin áttu í erfiðleikum með að klára sóknir. Að endingu var það Helgi Rafn sem setti niður skot úr horninu og jafnaði leikinn 64-64 þegar 35 sek voru eftir. Þannig voru lokatölur leiksins þrátt fyrir tilraunir beggja liða til að skora og þurfti því að framlengja.

 

Framlengingin byrjaði á góðum þrist frá Ólafi Helga eftir vel útfærða sókn 67-64 staðan. Liðin skiptust á að skora en Simmons var sterkur í liði heimamanna og setti niður tvö víti eftir að Darrell Flake hafði brotið á honum og þar með fékk hann sína fimmtu villu, 71-67 staðan. Tindastóll fékk nokkra sénsa til að skora í næstu sókn sem gekk ekki en í staðinn setti Maciej stóran þrist fyrir Njarðvík og kom þeim í 74-67 þegar 2:30 voru eftir. Þetta virtist vera höggið sem þurfti fyrir heimamenn því þeir gegnu á lagið í kjölfarið og kláruðu framlenginguna með stæl og þar með leikinn 82-73.

 

Hjá heimamönnum var Maciej Baginski stigahæstur með 19 stig/6 fráköst en hann kom virkilega sterkur inn í þennan leik eftir að hafa byrjað á bekknum. Marquise Simmons var með 18 stig/21 frákast/5 stoðsendingar. Logi Gunnars með 14 stig/5 fráköst/3 stoðsendingar og Hjörtur Einarsson með 13 stig/6 fráköst/4 stoðsendingar.

 

Hjá Tindastól var Darrell Lewis sem fyrr stigahæstur með 23 stig/14 fráköst/5 stoðsendingar. Helgi Rafn var með 16 stig/9 fráköst/6 stoðsendingar. Jerome Hill 14 stig/11 fráköst. Darrell Flake 8/stig og Pétur Birgisson 7 stig/ 4 stoðsendingar. 

 

Tölfræði leiks

Myndasafn: Skúli Sig.

Fréttir
- Auglýsing -