Markmið Hauka fyrir þennan leik fór ekki á milli mála. Það átti ekki aðeins að vinna hann heldur vinna hann sannfærandi og senda skilaboð til hinna liðanna í deildinni. Skilaboð þess efnis að Haukar geta spilað fantagóðan varnarleik og skotið ljósin úr húsinu ef þeim sýnist. FSu liðar voru bara óheppnir að verða á vegi þeirra.
Haukar spiluðu sinn langbesta varnarleik í vetur strax í fyrsta hluta. Héldu FSu í 14 stigum og 0,66 stigum per sókn. FSu tapaði 7 boltum bara á fyrstu 10 mínútunum. Í ofan á lagt hófu þeir skothríð úr öllum áttum og hittu úr nánast öllu sem þeir fleygðu upp. Skotnýting Hauka í fyrsta hluta var 71,1% eFG% og þeir skoruðu 1,42 stig per sókn.
Eftir fyrsta fjórðung slökuðu Haukar aðeins á varnarleiknum en FSu tókst ekki að nýta það sem skyldi því varnarleikur þeirra var þeim algerlega til skammar. Teigurinn galopinn hvað eftir annað og hreyfanleiki varnarinnar nánast enginn svo Haukum tókst ítrekað að finna galopið skot fyrir utan þriggja stiga línuna.
Þrátt fyrir hetjulegar tilraunir Chris Caird sá FSu í raun aldrei til sólar í þessum leik. Caird skoraði 30 stig í leiknum og tók 6 fráköst. Hann skaut 12/17 í leiknum og þar af 5/7 í þristum. Chris Anderson var afleitur í öllum leiknum og sást varla inni á vellinum því hann spilaði aðeins 23 mínútur. Haukar tóku hann úr öllu jafnvægi og skoraði hann aðeins 8 stig.
Hjá Haukum var Haukur Óskarson sjóðheitur með 26 stig og 4/9 í þristum. Stephen Madison bætti við 24 og hinn ungi og bráðefnilegi Hjálmar Stefánsson átti frábæran leik í kvöld. Finnur Atli gældi við þrennuna en hann var með 12 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar.
Mynd úr safni: Haukur Óskarsson átti frábæran leik í kvöld gegn FSu. (HT)