spot_img
HomeFréttirCaird: Vandamálið er varnarleikurinn okkar

Caird: Vandamálið er varnarleikurinn okkar

Chris Caird spilaði frábærlega fyrir FSu í gærkvöldi. Skoraði 30 stig og hitti frábærlega fyrir utan þriggja stiga línuna. Hvernig sem því líður getur þessi magnaði Breti ekki verið sáttur með sitt lið.

 

"Þetta er liðsíþrótt. Skipti engu hversu vel ég spila ef við náum ekki að spila eins og lið. Við skiptumst á körfum í seinni hálfleik og náðum aldrei að stöðva þeirra sóknir."

 

FSu spilar mikið annað hvort fyrir utan þriggja stiga línuna eða inni í teig. Haukar voru hins vegar ekki að gefa þeim neitt við körfuna svo sóknarþunginn þurfti að færast utar. "Maciej var flottur í seinni hálfleik tók mikið af fráköstum og kom boltanum út á skytturnar, en vörnin þeirra gaf okkur annars ekki mikið af tækifærum inni í teiginum."

 

Óhætt er að segja að búist hafi verið við meiru af FSu í vetur. Liðinu var t.d. spáð fyrir ofan ÍR áður en leiktíðin hófst en Breiðhyltingar hafa verið í botnbaráttu undanfarin ár. Liðið er væntanlega ekki sátt við sinn hlut það sem af er vetri. 

 

"Þótt við værum að vinna," svaraði Caird "þá verðum við alltaf að reyna að bæta okkur. Núna er hins vegar að duga eða drepast fyrir okkur verandi án sigurs og með fimm töp á bakinu. Vandamálið er fyrst og fremst varnarleikurinn. Okkur gengur vel að skora körfur, en ráðum illa við að stöðva andstæðinginn."

Fréttir
- Auglýsing -