Vitað var að þetta yrði erfiður leikur fyrir Grindavík eftir að hafa misst tvo mjög mikilvæga leikmenn í meiðsli í síðustu leikjum. Þær gulu spiluðu án Petrúnellu Skúladóttur og Helgu Einarsdóttur sem eru báðar að fást við afleiðingar heilahristings.
Keflavík kom inn í þennan leik eftir 3 töp í röð og var því þessi leikur mikilvægur fyrir liðið upp á baráttu um stöðu á töflunni.
Bæði lið fóru brösulega af stað. Sóknarleikurinn stirður en Grindavík gat varla keypt körfu eftir fína byrjun í 1. hluta. Guðni, þjálfari Grindavíkur tók leikhlé um miðbik 2. hluta og hefur kokkað upp einhverja töfralausn á vandamálum liðsins á þeirri mínútu sem það stóð yfir. Allt annað var uppi á teningnum eftir það.
Grindavíkurstúlkur hlupu kerfin sín vel og nýttu færin. Spiluðu svo fantavörn og náðu að komast einu stigi yfir, 35-36 rétt fyrir hálfleik.
Í upphafi seinni hálfleiks skiptust liðin á að ná forystunni, alls 9 sinnum í leiknum. Bæði lið spiluðu mjög vel en Keflavík seig fram úr í lok 3. hluta og hafði náð að síga 7 stigum fram úr þegar flautan gall.
Fimm mínútna stigalaus kafli hjá Keflavík í 4. hluta hleypti Grindavík aftur inn þar til Guðlaug Björt tók lokið af körfunni og skoraði 2 stig eftir væna fléttu. Sóknarleikur Keflavíkur var ekki að ganga sem skyldi það sem eftir lifði leiks en grjótharður varnarleikur skilaði þeim hins vegar mikilvægum 72-64 sigri á heimavelli.
Melissa Zorning leiddi Keflvíkinga með 31 stig en Sandra Lind var eins og turn í teignum með 10 stig, 15 fráköst og 6 varin skot. Hjá Grindavík mæddi mikið á Whitney Frazier en hún fékk lítið rými til athafna í teignum á móti Söndru. Hún skoraði 19 stig í leiknum og tók 10 fráköst.
Mynd úr safni: Melissa Zorning leiddi Keflavíkurstúlkur með 31 stig í kvöld. (Bára Dröfn)