spot_img
HomeFréttirOlson: Við þurfum leiðtoga

Olson: Við þurfum leiðtoga

Karfan.is náði tali af Erik Olson, þjálfara FSu í dag en liðið var að senda frá sér bandaríska leikmanninn Chris Anderson og verður á erlends leikmanns eitthvað áfram á meðan framhaldið er ákveðið. Erik sagði þessa ákvörðun ekki hafa verið auðvelda að taka.

 

"Þetta er ekki eitthvað sem við gerum af hálfum hug, en eins og staðan er hjá okkur, með ungt og áhrifagjarnt lið var ekkert annað í stöðunni. Við gáfum Chris eins mikinn tíma og rými til að aðlagast því að spila erlendis áður en við tókum þessa ákvörðun."

 

Anderson hafði aldrei áður spilað í Evrópu en hann hafði spilað í deild í Mexíko sem er byggð upp á allt annan hátt en þekkist í Evrópu.

 

"Chris reyndi vafalítið eftir fremstu getu að ná því fram sem við fórum fram á við hann, en okkur varð það ljóst að það þyrfti að gera breytingar til þess að fá meira út úr liðinu okkar."

 

Olson sagði þessa ákvörðun ekki byggða á einstaklingsgrundvelli. Tölfræði leikmannsins var ekki það sem réði úrslitum heldur leiðtogahæfni hans innan og utanvallar. FSu er fullt af ungum leikmönnum sem þurfa leiðtoga og fyrirmynd.

 

Fréttatilkynning félagsins sagði að liðið myndi leika án erlends leikmanns eitthvað áfram en ákvörðun um hvort annar erlendur leikmaður verði ráðinn til félagsins verður tekin fljótlega. Gera má að því skóna að það verði gert og þá fljótlega ætli félagið að halda sæti sínu í deild þeirra bestu á Íslandi. Hvers konar leikmaður yrði það þá?

 

"Það verða ekki gerðar miklar breytingar heldur aðeins aðlögun að breyttu ástandi. Vandamál okkar er stöðugleiki og varnarleikur umfram annað. Við þurfum fyrst og fremst að styrkja þær stoðir en það gerist aðeins með hjálp hópsins í heild."

 

Hvað varðar nýjan erlendan leikmann segist Olson vera að leita að reynslu fyrst og fremst. Leikmenn sem hafa sýnt góðan leik í evrópska boltanum sem eru mun meiri liðsbolti og flæðir meira en háskólaboltinn í Bandaríkjunum. "Við munum fá leikmann til að stykja framlínuna með fráköst og vörn í forgrunni."

 

Nú þurfa hins vegar hinir leikmennirnir að stíga upp og sýna á hverju árangur undanfarinna ára er byggður á. Chris Caird hefur spilað frábærlega í vetur en hann getur þetta ekki einn. "Ég hlakka til að sjá viðbrögð strákanna, því þeir vita að nú þarf að taka saman höndum og vinna eins og hópur. Nú er tækifæri til að byrja upp á nýtt og snúa aftur í grunninn. Ég er þess fullviss að strákarnir bregðast vel við þessu ástandi."

 

Verða breytingar á leikskipulaginu núna þegar Anderson fer út eða verður þetta bara eins og áður? "Við höldum óbreyttu skipulagi," sagði Olson. "Kerfið okkar byggir ekki á einstaklingsframlagi svo ég vona að þetta verði til þess að samheldnin styrkist."

Fréttir
- Auglýsing -