spot_img
HomeFréttirMagic Johnson: Porzingis er stuldur nýliðavalsins

Magic Johnson: Porzingis er stuldur nýliðavalsins

Magic Johnson sat við hliðarlínuna í Madison Square Garden þegar Los Angeles Lakers mættu í heimsókn og spiluðu við New York Knicks. 

 

Eitthvað hefur Lettinn Kristaps Porzingis heillað töframanninn upp úr skónum því sá gamli tísti eftir leikinn að Phil Jackson eigi heiður skilið og þakkir frá stuðningsmönnum Knicks fyrir að "stela" Porzingis í nýliðavali þessa árs.

 

 

Porzingis var valinn með fjórða valrétti Knicks en lengi var því haldið fram að hann myndi falla mun neðar í valinu og mikið spáð í hver myndi draga svarta Pétur ef svo má segja.

 

Það gerði Zen-meistarinn Phil Jackson og uppskar baul og öskur úr salnum í Barclays Center í júní.

 

Porzingis hefur hins vegar komið skemmtilega á óvart með 12,3 stig í leik; 8,6 fráköst og 1,3 varin skot. Derek Fisher, þjálfari Knicks segir helsta vandamál hans vera villuvandræði en hann leiðir alla nýliða með 4,1 villu í leik.

 

Menn gæla jafnvel við það í dag að hann geti mögulega endað sem nýliði ársins.

Fréttir
- Auglýsing -