Haukar fóru illa með FSu fyrir viku síðan á Ásvöllum, spilandi stífa kæfandi vörn og hittandi skotum sínum út um allt. Það var því erfiður leikur fyrir höndum hjá ÍR í Hellinum í gærkvöldi. Ekkert er þó ómögulegt því ÍR sendi Stjörnuna heima með skottið milli lappanna í lok síðasta mánaðar. Það var því beggja liða að sanna sig. ÍR að þeir geti varið heimavöllinn sinn fyrir betri liðum og Hauka að sýna að þeir eru komnir á siglingu sem stöðvar ekki fyrr en í vor.
ÍR-ingar mættu einfaldlega ekki tilbúnir í þennan leik. Hvorki andlega, líkamlega eða hvað körfubolta almennt varðar. Upphitunin var dauf og eins og verið væri að leiða leikmenn fyrir dóm. Haukar hins vegar kokhraustir og tilbúnir í verkið. Tilbúnir að spila sinn leik þrátt fyrir að andstæðingurinn væri eitt þeirra liða sem spáð var falli í vor.
Þessi leikur náði því miður aldrei að verða spennandi og það eina sem bjargaði honum sem sjónvarpsleik voru mögnuð tilþrif frá leikmönnum beggja liða. Hjálmar Stefánsson tengdi alley-oop troðslu eftir sendingu frá Emil Barja við miðju vallarins. Því næst tróð Björgvin Hafþórsson kröftuglega yfir 2-3 varnarmenn Hauka. Hressandi viðbót við annars dapran leik.
ÍR-ingar hittu ekki neitt. Skotnýting heimamanna var einhver sú versta sem undirritaður man eftir að hafa séð. 28% nýting skota utan af velli! Þeir hefðu bókstaflega ekki getað hitt í hafið úr árabát. Vörn Hauka var öflug en þegar maður veltir því fyrir sér að ÍR tapaði 12 boltum í leiknum (sem er rétt undir meðaltali liðsins á þessari leiktíð) og fór ekki einu sinni á vítalínuna í fyrri hálfleik þá má færa rök fyrir því að liðið hafi bara einfaldlega ekki reynt nægilega mikið.
Haukar fóru heim með sigurinn, 57-109 sem er sá stærsti hjá Haukum í Hellinum frá upphafi. ÍR hins vegar fór heim með skömmina og þurfa ÍR-ingar nú að íhuga stöðu sína alvarlega og velta því fyrir sér hvort þeir ætli að bjóða stuðningsmönnum sínum upp á frammistöðu sem þessa þegar lið í efri hluta töflunnar koma í heimsókn.
Stephen Madison var frábær í liðið Hauka. Það réði enginn við hann þær 25 mínútur sem hann spilaði. 24 stig og 6 stolnir boltar. +/- tölfræðin hans var út úr kortinu: +52 eða stigamunur liðanna í leiknum. Allir leikmenn Hauka skoruðu í leiknum. Hjá ÍR leiddi Jonathan Mitchell með 15 stig og 12 fráköst en hann skaut herfilega í leiknum eða 5/19.
ÍR-Haukar 57-109 (11-32, 12-23, 10-27, 24-27)
ÍR: Jonathan Mitchell 15/12 fráköst, Vilhjálmur Theodór Jónsson 10, Eyjólfur Ásberg Halldórsson 10, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 9/11 fráköst, Daníel Freyr Friðriksson 6, Sveinbjörn Claessen 3, Sæþór Elmar Kristjánsson 2, Oddur Rúnar Kristjánsson 2, Hákon Örn Hjálmarsson 0, Trausti Eiríksson 0, Kristján Pétur Andrésson 0, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 0.
Haukar: Stephen Michael Madison 24/6 stolnir, Haukur Óskarsson 20/4 fráköst, Kristinn Marinósson 15/9 fráköst, Hjálmar Stefánsson 13, Kári Jónsson 13/4 fráköst, Guðni Heiðar Valentínusson 6/5 fráköst, Finnur Atli Magnússon 4/9 fráköst/5 stoðsendingar/4 varin skot, Óskar Már Óskarsson 3, Alex Óli Ívarsson 3, Ívar Barja 3, Emil Barja 3/10 fráköst/5 stoðsendingar, Jón Ólafur Magnússon 2.