Bjarni Magnússon, þjálfari ÍR var orðlaus þegar Karfan.is leitaði svara hjá honum um árangur liðsins í Hellinum í gærkvöldi. "Ef ég væri með svörin á hreinu hefði ég náð breyta einhverju strax. En þetta er bara afrit af síðasta leik."
Bjarni taldi sig hafa undirbúið liðið vel og var mjög sáttur við stemninguna í því í vikunni. "Svo klikkar eitthvað í byrjun og það verður bara andleg uppgjöf."
Hann sagði að þegar andlegan styrk og sjálfstraustið vantar þá detta skotin ekki eins raunin varð í gærkvöldi. "Verst af öllu er hvað við erum fljótir að gefa eftir varnarlega. Hvað við erum linir alveg frá fyrstu mínútu. Öll leikplön varnarlega eru bara ekki til staðar því menn eru bara einhvers staðar annars staðar."
Aðspurður um erfiðan næsta leik og mögulega léttari dagskrá eftir það svaraði Bjarni snögglega: "Það er ekki rétt. Lið sem tapar með 50 stigum á heimavelli á enga auðvelda dagskrá fyrir sér. Þannig að þetta eru allt erfiðir leikir hjá okkur. En ef menn ná að sýna sitt rétta andlit þá eru þetta allt leikir sem við eigum að geta sýnt að við getum unnið."
Hann vildi þó ekki skella skuldinni algerlega á leikmennina. "Þetta er frammistaða vinnur ekki leiki og við eigum að skammast okkar því við getum allir gert betur, bæði leikmenn og þjálfarar."