Ísland mætir Ungverjalandi í fyrsta leik sínum í undankeppni EM kvenna 2017 á laugardaginn kemur en leikurinn fer fram í borginni Miskolc í norð-austurhluta landsins.
Ungverska liðið var með í síðustu úrslitakeppni sem fór fram síðasta sumar og voru Ungverjar þá á heimavelli. Keppnin fór fram bæði í Ungverjalandi og Rúmeníu.
Ungversku stelpurnar unnu aðeins 1 af 4 leikjum sínum í keppninni, komust ekki upp úr sínum riðli og enduðu í 17. sæti af 20 þjóðum.
Eini sigurleikur Ungverja kom í lokaleik riðilsins á móti Slóvakíu en liðið tapaði meðal annars 72:63 á móti Svíum.
Ungverjar hafa nú gefið út hvaða fjórtán leikmenn munu taka þátt í leikjum tveimur í nóvember en Ungverjar spila við Portúgal fjórum dögum eftir Íslandsleikinn eða á sama tíma og íslensku stelpurnar taka á móti Slóvakíu í Laugardalshöllinni.
Það eru bara 6 af þessum 14 leikmönnum sem voru með á EM í sumar og það vantar meðal annars 3 af 5 byrjunarliðsleikmönnum liðsins. Enginn af þeim sem byrjuðu leikinn á undan, tapleik á móti Spáni, eru með.
Leikmennirnir sem byrjuðu sigurleikinn á móti Slóvökum og taka þátt í þessu verkefni eru bakvörðurinn Timea Czank og miðherjinn Tijana Krivacevic sem voru báðar liðsfélagar Helenu í atvinnumennskunni.
Alls vantar fjórar af fimm stigahæstu leikmönnum Ungverja á Evrópumótinu en það eru bakvörðurinn Allie Quigley (17,0 stig í leik), kraftframherjinn Anna Vajda (9,8 stig og 6,5 fráköst í leik), leikstjórnandinn Katalin Honti (9,5 stig og 6,3 stoðsendingar í leik) og miðherjinn Dóra Horti (8,0 stig í leik).
Tijana Krivacevic (9,5 stig og 4,8 fráköst í leik) er sú af þessum fimm stigahæstu sem íslensku stelpurnar fá að reyna sig á móti í leiknum á laugardaginn.
Það mætti halda að ungverska liðið sé að ganga í gegnum kynslóðarskipti eftir vonbrigðin að sitja eftir í riðlinum sem gestgjafar Evrópumótsins síðasta sumar.
Fjórtán manna hópur Ungverja:
Tímea Czank (Með á EM 2015)
Zsófia Fegyverneky (Með á EM 2015)
Dubei Debóra
Diána Furész
Bernadett Határ (Með á EM 2015)
Bernadett Horváth
Pálma Kaposi
Tijana Krivacevic (Með á EM 2015)
Anna Laklóth
Nóra Nagy-Bujdosó
Dorottya Nagy
Zsófia Simon (Með á EM 2015)
Fanni Andrea Szabó
Dorina Zele (Með á EM 2015)