Helena Sverrisdóttir og Ívar Ásgrímsson voru fulltrúar Íslands á blaðamannafundi eftir viðureign Ungverjalands og Íslands í Miskolc í kvöld. Stefan Svitek þjálfari Ungverja sagði að íslenska liðið hefði gert vel í að gera Ungverjum erfitt fyrir í kvöld.
„Við vissum að þetta yrði erfitt en við lékum af hörku og náðum muninum niður í 10 stig í fjórða leikhluta svo ég er stolt af baráttunni í liðinu,“ sagði Helena við ungverska fjölmiðla eftir leik. Ívar Ásgrímsson þjálfari Íslands tók í ekki ósvipaðan streng.
„Ungverjar eru með gott lið og við vissum allan tímann að við yrðum að eiga okkar besta leik en skotin duttu ekki í kvöld en ég er engu að síður stoltur af liðinu,“ sagði Ívar.
Tijana Krivacevic setti 27 stig yfir íslenska liði í kvöld og var besti maður vallarins. Tijana hefði þó viljað hafa meiri undirbúning fyrir leikinn. „Já undirbúningurinn var lítill en við unnum okkar vinnu þó við hefðum verið lengi í gang.“
Stefan Svitek þjálfari Ungverja hrósaði íslenska liðinu fyrir sína frammistöðu í kvöld á blaðamannafundinum: „Ég vil óska íslenska liðinu til hamingju með sína frammistöðu. Ísland gerði þetta að athyglisverðum leik og þær gerðu okkur erfitt fyrir. Við fundum loksins taktinn og það virkaði vel að setja þunga pressu á bakverðina og þetta 18-0 áhlaup var grunnurinn að sigri okkar í kvöld.“
Mynd/ [email protected] – Svitek þjálfari Ungverja hrósaði íslenska liðinu fyrir frammistöðuna sína í leiknum.