Fagnaðarfundir urðu í Miskolc þegar Kristen McCarthy fyrrverandi liðsmaður Snæfells arkaði inn á hótelið þar sem kvennalandsið Íslands dvelur nú. McCarthy sem varð Íslandsmeistari með Snæfell á síðustu leiktíð er nú með atvinnumannasamning í Rúmeníu.
Þar sem landsleikjahlé er í flestöllum kvennadeildum Evrópu um þessar mundir brá McCarthy undir sig betri fætinum og ferðaðist frá Rúmeníu til Miskolc í Ungverjlandi til að fylgjast með íslenska liðinu leika gegn því ungverska.
Systurnar Berglind og Gunnhildur Gunnarsdætur þekkja McCarthy vel og komu vel útbúnar fyrir þá bandarísku til Ungverjalands en þær voru m.a. vopnaðar slátri og öðru íslensku góðgæti sem McCarthy hafði lært að kunna að meta á Íslandi. Nú til að falla enn betur í kramið hjá landanum mætti McCarthy í forláta lopapeysu á leikinn sem hún fékk á meðan dvöl hennar stóð á Íslandi svo það er nokkuð ljóst að Stykkishólmur skipar ansi stóran sess í hjarta þessarar ungu konu.
McCarthy var svo einn helsti og fremsti stuðningsmaður íslenska liðsins í stúkunni á leiknum í kvöld og öskraði sig hása: Áfram Ísland…enda McCarthy vel þekkt fyrir íslenskukunnáttu sína eftir magnaðan flutning á lagi Friðriks Dórs sem sjá má hér að neðan
Mynd/ [email protected] – McCarthy ásamt „systrum“ sínum Berglindi og Gunnhildi Gunnarsdætrum sem eru orðnir stórfelldir útflutningsaðilar að slátri… þannig lagað.