Við höldum áfram að birta sterkustu 5 manna uppstillingu liðana í Dominosdeildinni og að þessu sinni er komið að Njarðvíkingum. Þrátt fyrir mögur ár nú á nýrri öld voru Njarðvíkingar nánast í áskrift þar á undan að titlum. Félagið halaði inn titlum og troðfullir bikarskápar Ljónagryfjunnar endurspegla það. Álitsgjafar hafa hingað til verið nokkuð afdráttarlausir í skoðun sinni en þeir Njarðvíkingar sem við höfðum samband við áttu í mesta basli með að raða saman fimm bestu og báðu endurtekið um að bæta við öðru fimm manna liði. En þetta hafðist að lokum og hér koma þeir sem álitsgjafar töldu vera bestu fimm.
Aðferðin sem við sættumst á að nota var að tala við 10-15 stuðningsmenn hvers liðs og passað var upp á að hafa þá öllum aldri þannig að hver kynslóð hefði sitt val. Álitsgjafar eru reglulegir gestir á leikjum liðanna og/eða "innan hús" menn sem þekkja vel til sem velja sitt byrjunarlið, þjálfara og sjötta leikmann. Með þessu vali létu stuðningsmennirnir svo fylgja smá texta fyrir hvern leikmann sem við svo klipptum niður og settum með.
Okkar skoðun (Karfan.is) er engin og við tökum okkur hliðarsæti í þessu titekna verkefni. Við tökum aðeins saman þau atkvæði sem við fengum sem í flestum tilvikum voru frekar afgerandi fyrir þá sem um ræðir hér.
Ungmennafélag Njarðvíkur
Stofnað: 1944
Íslandsmeistaratitlar: 13
Bikarmeistaratitlar: 8
Leikstjórnandi: Friðrik Pétur Ragnarsson
Mynd:mbl.is
Leikir: 328
Landsleikir: 31
Tölfræðimoli: Þann 15. Október 1998 skoraði Friðrik 30 stig í leik gegn Þór Akureyri en þar spilar einmitt sonur hans nú í dag, Ragnar Helgi Friðriksson
Friðrik stýrði leik Njarðvíkinga af festu og var leiðtogi í sínu hlutverki. Friðrik átti gott lag með að finna jafnvægi á milli þess að stjórna leiknum og svo að þurfa að skora fyrir lið sitt. Sjaldnast þurfti hann að skora mikið þar sem hann var umkringdur leikmönnum sem sáu um það. Friðrik sá um að mata þá og/eða stilla upp sóknum sem komu þeim í besta mögulega færið. . Friðrik Var þessi leikmaður sem þjálfarar þurfa inná vellinum og ekki kom á óvart að hann settist svo sjálfur í þjálfarastólinn seinna meir bæði hjá Njarðvík og svo Grindavík.
Hvað sögðu álitsgjafarnir:
“Hershöfðingi. Stjórnaði leiknum alltaf vel”
“Einn mesti keppnismaður sem sést hefur”
“Bara einn gír. Alltaf í 6. gír!”
“Frábær leikstjórnandi”
“Mikill leiðtogi”
“Harðjaxl sem var erfitt að eiga við”
“Góður varnarmaður”
Skotbakvörður: Teitur Örlygsson
Mynd:Dv.is
Leikir: 406
Landsleikir: 118
Tölfræðimoli: Teitur stal 11 boltum í leik gegn Grindavík þann 13. nóvember 1988. Njarðvík vann leikinn með einu stigi.
Það ætti að koma fæstum á óvart að Teitur Örlygsson sé skotbakvörður liðsins. Teitur af mörgum talinn einn mesti sigurvegari hópíþrótta á landinu og 10 Íslandsmeistaratitlar hans ættu að vega þungt í þeirri staðhæfingu. Teitur er einn af þrem bestu körfuknattleiksmönnum sem Ísland hefur getið af sér. Teitur gat á svipstundu tekið leiki yfir og klárað eins síns liðs. Teitur var ekki bara með gott skot og gat skorað heldur las hann leikinn einstaklega vel og má segja að hann hafi verið einskonar taflspilari þar sem hann oftar en ekki skrefi ef ekki tveim á undan andstæðingi sínum. Keppnisskap Teits var gríðarlegt og tveir hlutir einkenndu hann á ferlinum, augnaráð hans þegar heitt var í hamsi og svo þau ófáu "NBA" þristar sem hann hlóð í reglulega. Ofaná lag var Teitur frábær varnarmaður sem var oftast settur til höfuðs aðal skorara andstæðinga Njarðvíkinga.
Hvað sögðu álitsgjafarnir:
“Lockdown varnarmaður”
“Einfaldlega "The GOAT" í íslenska boltanum”
“Baráttan og sigurviljinn það sem gerði Teit að einum besta manni í sögu körfuboltans”
“Jón Arnór er eini betri Íslendingurinn”
“Þjófóttur!”
“Fluglæs á leikinn”
“Algert náttúru talent”
Framherji: Brenton Joe Birmingham
Leikir: 145
Landsleikir: 19
Tölfræðimoli: Tímabilið 2000-2001 skilaði Brenton 24 stigum, 7 fráköstum og sendi tæpar 6 stoðsendingar á leik fyrir Njarðvíkinga
Brenton var einn af þeim leikmönnum sem fékk tilnefningu í þrjár stöður í þetta fimm manna lið UMFN. Brenton var settur í stöðu leikstjórnanda, skotbakvörð og svo framherja. Sú kosning ætti að sýna hversu fjölhæfur leikmaður Brenton var. Einstaklega lipur leikmaður sem var gaman að fylgjast með. Allar hreyfingar hans silkimjúkar og lét hann þetta allt líta út fyrir að vera frekar auðvelt. Líkt og Teitur þá átti Brenton auðvelt með að taka leiki í sínar hendur og klára á eigin spítur. Að því er við best vitum þá er þetta eini leikmaðurinn sem hefur náð fernu fyrir Njarðvíkinga í leik.
Hvað sögðu álitsgjafarnir:
“Einn sá besti og fjölhæfasti sem hefur spilað á Íslandi”
“Frábær leikmaður á báðum endum vallarins og góð fyrirmynd”
“Ferillinn segir allt”
“Jafn fjölhæfur og hann er myndarlegur”
“Aldrei hafa eins fágaðar og fallegar hreyfingar sést á fjölum Ljónagryfjunnar”
“Gæti horft á syrpu af Brenton taka finger roll klukkustundum saman”
“Eðalmenni og fagmaður fram í fingurgóma”
Framherji: Valur Snjólfur Ingimundarson
Leikir: 228
Landsleikir: 164
Tölfræðimoli: Valur hefur leikið næst flesta leiki fyrir íslenska landsliðið. Valur skoraði mest 53 stig í einum leik fyrir Njarðvík
Valur hlaut yfirburða kosningu hjá álitsgjöfum í þessa stöðu, líkast til því erfitt var að koma honum í skotbakvörðinn eða lítin framherja þar sem ætti í raun heima. Valur var einstakur leikmaður sem setti svip sinn á flesta titla sem unnust hjá liði Njarðvíkinga. Valur var skorari af guðs náð og bakvið það hefur hann stigamet í úrvalsdeild til sönnunar. Valur var einnig lunkinn í staðsetningum fyrir fráköstin og hrifsaði þau til sín líkt og segull. Valur var einnig mikill keppnismaður sem þoldi illa að tapa og hugsanlega þess vegna sleppti hann því eins og hann gat.
Hvað sögðu álitsgjafarnir:
“Einfaldlega besti skorari allra tíma”
“Svakalegur winner og algjör töffari”
“Færi í All Star 5 manna lið allra tíma á Íslandi hjá mér”
“Ein af fyrstu stjörnum íslenska boltans”
“Ólseigur frákastari og mikill sigurvegari”
“Gríðarlegur karakter”
“20 tímabil og 11 þeirra í +20 stigum”
Miðherji: Friðrik Erlendur Stefánsson
Leikir: 329
Landsleikir: 112
Tölfræðimoli: Friðrik tók 18 varnarfráköst í leik gegn Keflavík þann 9. mars 2006. Í sama leik smellti hann einum af fáum þristum sem hann setti á ferlinum.
Friðrik Stefánsson þrátt fyrir að rétt slefa yfir tvo metra er einn af þeim allra sterkustu miðherjum sem Ísland hefur séð. Friðrik stendur í 204 sentímetrum og bætti það upp með gríðarlegum líkamlegum styrk sínum, þetta helsta einkenni íslenskra miðherja. Friðrik sá um teiginn fyrir Njarðvíkurliðið í rúmann áratug og ynnti því vel af hendi. Friðrik hrifsaði til sín rúmlega 10 fráköstum á leik og skilaði um 12 stigum að meðaltali á ferlinum. Tvenna sem fáir getað státað af í svo langan tíma. Helsti styrkleiki Friðrik var hinsvegar varnarlega þar sem hann setti í lás á jafnvel hærri menn niðri á "póstinum" Viðurnefnið "Heimakletturinn" kom í kjölfarið og vísaði í heimahaga Friðriks í Vestmannaeyjum og svo auðvitað þeim kletti sem andstæðingar hans fengu að eiga við.
Hvað sögðu álitsgjafarnir:
“Stabíll og öflugur center”
“Sterkur sem naut”
“Hálfgert náttúruafl í deildinni”
“Eins gaman og var að hafa hann í Njarðvík hefði ég viljað sjá hann meira í atvinnumennsku erlendis.”
“Illviðráðanlegur í teignum”
“Einn besti varnarmaður Íslands frá upphafi”
“Frábær sendingamaður verandi miðherji”
Sjötti leikmaður: Logi Gunnarsson
Leikir: 177
Landsleikir: 121
Tölfræðimoli: Logi lék sitt fyrsta tímabil árið 1997-1998 þá 16 ára gamall. Hann hampaði Íslandsmeistaratitlinum það árið með liðinu.
Logi Gunnarsson yrði að öllum líkindum í fyrsta 5 manna liði hjá flestum öðrum liðum. Logi hefur og er gríðarlega duglegur leikmaður sem hefur lagt mikið á sig til að ná þangað sem hann er og því sem hann hefur afrekað. Logi er banneitrað sóknarvopn þar sem hann getur hrokkið í gang og klárað leikina með hreint ótrúlegum skotum sínum. Það sem setur Loga líkast til í 6. leikmanninn er sú staðreynd að lungann af ferli sínum hefur hann leikið í atvinnumennsku erlendis. Logi hefur farið nánast um alla Evrópu með leik sinn og staðið sig vel. Logi hefur að geyma gríðarlegan stökkkraft sem hefur skilað honum troðslumeistara titli hér fyrr á árum. Logi lék með liði Íslands á Eurobasket í sumar í Berlín og stóð sig gríðarlega vel gegn körfuboltatröllum Evrópu. Þrátt fyrir að vera kominn hátt á fertugsaldurinn er Logi einn af þeim leikmönnum deildarinnar sem virðist bara "bestna" með aldrinum.
Hvað sögðu álitsgjafarnir:
“Aldrei séð aðra eins sprengju”
“Gat stokkið út úr húsinu á fermingaraldri”
“Þvílíkur metnaður hjá einum leikmanni”
“Leikmaður sem spilar best þegar mest á reynir.”
“Frábær skytta og íþróttamaður”
“Einstök fyrirmynd fyrir iðkendur UMFN”
“Metnaðarfullur leikmaður og mikill keppnismaður”
Þjálfari: Friðrik Ingi Rúnarsson
Aðeins tveir þjálfarar fengu atkvæði í þessu kjöri og varð Friðrik ofaná. Friðrik hóf feril sinn sem ein af betri skyttum liðsins áður enn hann tók við að Rondey Robinson þjálfarastöðu liðsins og gerði sér lítið fyrir og stýrði til Íslandsmeistaratitils aðeins 23 ára gamall sem gerir hann að yngsta þjálfara frá upphafi til þess að afreka slíkt. Friðrik hefur að geyma heilu euro brettin af kunnáttu um körfuknattleik og eftir fáein ár í fjarveru stýrir hann nú aftur skútu Njarðvíkinga.
Hvað sögðu álitsgjafarnir:
“Frumkvöðull í þjálfun á Íslandi”
“Kann leikinn uppá 10”
“Fær það bestu úr leikmönnum”
“Meistari í að kveikja í leikmönnum”
Aðrir sem voru nefndir:
Ísak Tómasson: "Vanmetnasti leikmaður allra tíma – Frábær leikstjórnandi og sigurvegari"
Jóhannes Kristbjörnsson: "Erfitt mismatch í íslenska boltanum – Hátt körfubolta IQ"
Gunnar Þorvarðason: "Goðsögn í lifandi mynd – Fann upp "pumpuna" "
Elvar Már Friðriksson: "Frábær skorari og playmaker – Flott fyrirmynd"
Páll Kristinsson: "Vanmetinn en um leið mikilvægur – Skutlaði sér á eftir öllum lausum boltum"
Jónas Jóhannesson: "Stór og traustur miðherji"
Kristinn Einarsson: " Einn sá öflugasti í mid-range skotinu"
Örlygur Aron Sturluson: " Mesta "IF" íslenska körfuboltans -Furðu auðvelt að velja hann þrátt fyrir aðeins 1 og hálft ár í meistaraflokki "