Þeir sem fylgjast eitthvað með íslenskum körfubolta vita að val á erlendum leikmönnum skiptir miklu máli. Eflaust hefur þó aldrei verið eins mikilvægt að velja góðan erlendan leikmann eins og þegar „framsóknarleiðin“ var tekin upp af KKÍ fyrir nokkrum árum og farið var að reka körfuboltann á Íslandi eins og landbúnaðarkerfið. Framsóknarleiðin felst auðvitað í hræðsluáróðri um að erlend vara sé mikið dýrari, hún komi í veg fyrir vöxt þeirrar íslensku og hún útrými henni algerlega að lokum. Nauðsynlegt sé því að hygla íslensku vörunni á kostnað þeirrar erlendu með kvótasetningu. Íslenska varan er þar að leiðandi komin í einokunarstöðu, hækkar í verði og minna verður um gæðavöru á markaði…
Talandi um framsókn. Er Breiðablik mögulega framsóknarlegasta körfuboltafélag á Íslandi? Liðið spilar spilar í græna framsóknarlitnum, er í Kópavogi sem var mikið framsóknarvígi og liðið vill helst ekki erlenda vöru. Ákveði liðið hins vegar að taka erlenda vöru er hún svo illa valin og léleg að sú íslenska lítur ávalt betur út í samanburði.
Eins og allir körfuboltaunnendur vita lék ég með Breiðablik í þrjú ár. Þegar ég hugsa út í það hefur það líklega verið vegna tengingar minnar við framsóknarflokkinn sem Einar Hannesson, fyrrum formaður félagsins, fékk mig til liðs við félagið en bróðir mömmu var mikill framsóknarmaður. Þetta vissu nú líklega allir. Það sem færri vissu er að tímabilin 2005-2006 og 2006-2007 fara sennilega í sögubækurnar fyrir glórulausustu ákvarðnir í vali á erlendum leikmönnum í sögu í íslensks körfubolta…
Allt hófst þetta þegar forráðamenn félagsins heyrðu að hörundsdökkur einstaklingur hefði komið í heimsókn til Tómasar Tómassonar, FIBA agent. Hugsuðu Blikar sér gott til glóðarinnar enda myndu þeir ná að spara sér kostnað við flug. Leikmaðurinn, sem ég man nú ekki nafnið á, hitaði reglulega upp með Gucci sólgleraugu og ullarhúfu og var hinn fínasti 1. deildar leikmaður. Hins vegar láðist forráðamönnum Breiðabliks að huga að gistingu þegar þeir kölluðu hann til æfinga. Nú voru góð ráð dýr. Þótti því skynsamlegast að koma honum fyrir heima hjá háöldruðum foreldrum formannsins þar sem hann gisti í fimm nætur eða þar til hann fór af landi brott af eigin rammleik þar sem Blikarnir voru hvorki tilbúnir að greiða honum laun né útvega honum örbylgjuofn til að hita máltíðir sínar sem hann sótti á elliheimilli Sunnuhlíð í Kópavogi.
Eftir þessa þraut var ákveðið að sleppa erlendum leikmanni um tíma eða allt þar til að til landsins kom David frá Ástralíu. David þessi var reyndar aðeins í þeim erindagjörðum að hitta hjásvæfu sína en einhvernveginn komust forráðamenn Breiðabliks á snoðir um það og buðu honum á æfingar. Kom í ljós að kauði var ágætur, stór og stæðilegur og gat sett eitt og eitt skot niður. Það sem láðist þó að gera var að semja við hjásvæfuna því um leið og flosnaði upp úr því sambandi var David rokinn úr landi. Svo heppilega vildi til að þetta var í miðri úrslitakeppni og enduðum við því útlendingalausir í lokaeinvíginu gegn Þór Þorlákshöfn. Sömu sögu var ekki að segja af Þór sem voru í raun með fjóra Bandaríkjamenn, þeirra á meðal spilandi þjálfarann Rob Hodgson, bandarískt ættaðan saxafónleikara að nafni Jason Harden og Sveinbjörn Skúlason. Sá síðastnefndi er nánast borinn og barnfæddur á Nato-Base á Keflavíkurflugvelli þar sem hann graðkaði í sig körfuboltamenningu, mat og sælgæti. Svo mikið drakk hann af Dr. Pepper að enn má greina lyktina af gosdrykknum þegar hann svitnar…
Tímabilið eftir var Bojan Desnica ráðinn þjálfari og hófst það með látum. Svo miklum látum að Davíð Þór Jónsson sem gengið hafði til liðs við Breiðablik undir lok fyrra tímabilsins ákvað að segja skilið við körfubolta eftir 1283. froskahoppið á undirbúningstímabilinu. Eitthvað sofnuðu þó forráðamenn félagsins á verðinum því rétt fyrir lok félagsskiptagluggans sáu menn að enginn kani var í liðinu. Á þeim árum mátti skipta um kana hvenær sem er en ef þú hafðir ekki verið með kana fyrir lok félagskiptagluggans mátti liðið ekki bæta honum við eftir að honum lokaði. Var því hlaupið til handa og fóta sem endaði með því að 60 ára gamall starfsamður í bandaríska sendiráðinu var fenginn í liðið. Talandi um framsókn og kennitölusvindl. Engin áhætta var tekin með að skrá hann aðeins á skýrslu og settist leikmaðurinn því á bekkinn án þess þó að láta reyna á New Balance hlaupaskóna.
Þegar að tók að nálgast lok tímabilsins kom Bojan á æfingu og tilkynnti hópnum að metnaður forráðamanna Breiðabliks væri nú loksins orðinn að veruleika. Til liðsins væri að koma 2 metra leikmaður sem hefði verið með 15 stig og 10 fráköst að meðaltali í leik í efstu deildinni í Portúgal, hinn eini sanni Renould Marcelin. Það var þó ljóst að lokinni fyrstu æfingu þegar leikmanninum hafði mistekist að troða um sjö sinnum að ekki var allt með feldu. Þegar betur var að gáð varð okkur ljóst að Renould hafði ekki spilað í efstu deild í Portúgal né þeirri fyrstu heldur í einhverri local deild á smáeyjunni Madeira rétt fyrir utan Portúgal…
En nóg um framsókn. Kíkjum aðeins á það helsta í íslenskum körfubolta.
Keflavík er ósigrað á toppnum í úrvalsdeild karla þegar þetta er skrifað. Frammistaða Reggie Dupree hefur vakið athygli en minni athygli fær hinn frábæri Magnús Traustason sem fór úr því að verma varamannabekkinn hjá nágrönnunum beint í byrjunarlið hjá efsta liði deildarinnar. Þá má heldur ekki gleyma aðkomu Einars Einarssonar í þjálfarateymið!
Talandi um þjálfara. ÍR búið að ráða enn einn þjálfarann þar sem árangurinn talar sínu máli, þ.e. táknmáli því það er á færi ansi fárra að skilja ákvarðanir ÍR-inga í þjálfaramálum…
Íslenska kvennalandsliðið sýndi mikla baráttu gegn Ungverjalandi og þrátt fyrir tap geta þær verið ansi stoltar af sinni frammistöðu ekki síst fyrir þær sakir að Sara Rún Hinriksdóttir og Margrét Rósa Hálfdánardóttir léku ekki með en þær eru að gera flotta hluti með Canisius College…
Það er ekki oft sem bandarískar stúlkur fara sérstaklega frá Rúmeníu til Ungverjalands til að komast í íslenskt slátur. Það gerði snillingurinn Kristen McCarthy en hún er án efa einn skemmtilegasti erlendi leikmaðurinn sem leikið hefur á Íslandi sl. ár, bæði innan sem utan vallar…
Bragi Magnússon skrifaði áhugaverða grein um körfuboltadómara og vini þeirra hér á Karfan.is á dögunum. Ég henti mér í gegnum greinina og leið um það bil svona að lestrinum loknum… YoutubeVideo