Fyrr í kvöld áttust við lið Þórs Þorlákshöfn og Hauka í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í 8. umferð Domino´s deildar karla. Liðin voru jöfn að stigum fyrir leik og mátti því búast við hörkuleik.
Jafnræði var með liðunum í byrjun leiks en leikurinn fór hægt af stað og lítið var skorað fyrstu mínúturnar, staðan að loknum fyrsta fjórðung var jöfn, 18-18.
Í öðrum leikhluta voru menn að taka vel á hvor öðrum en dómarar leiksins voru að leyfa miklar snertingar. Leikhlutinn var jafn framan af en Haukar sigu fram úr undir restina og höfðu 45-37 forskot í hálfleik.
Seinni hálfleikur fór hressilega af stað en Haukar byrjuðu á að skella niður þremur 3ja stiga körfum og Þórsarar svöruðu með þremur 3ja stiga körfum. Eftir það tóku Haukar völdin og juku forystuna jafnt og þétt en þeir höfðu 16 stiga forystu að loknum þriðja leikhluta, 75-59, en Þórsurum gekk illa að skora í körfuna gegn þéttri Haukavörninni.
Fjórði leikhluti var mjög daufur en þar skoruðu liðin aðeins 20 stig samanlagt, en leiknum lauk með Haukasigri og voru lokatölur 88-70.
Haukarnir spiluðu góða vörn í leiknum en Þórsarar töluvert frá sínu besta í kvöld.Atkvæðamestur Hauka í leiknum var Haukur Óskarsson með 23 stig, atkvæðamestur Þórsara var Vance Hall með 19 stig. Með sigrinum sitja Haukar nú í 3-5. sæti með 10 stig en Þórsarar eru í 6-8. sæti með 8 stig.
Umfjöllun: VAB
Mynd úr safni: Haukur Óskarsson var sjóðheitur í leiknum gegn Þór Þorlákshöfn. (Axel Finnur)