spot_img
HomeFréttirAgnar furðulostinn yfir dómi aganefndar

Agnar furðulostinn yfir dómi aganefndar

Tveir leikmenn, annar úr B-liði Njarðvíkinga og hinn úr B-liði Hauka, voru í dag dæmdir í þriggja leikja keppnisbann vegna háttsemi sinnar í viðureign liðanna þann 14. nóvember síðastliðinn. Nánari málsatvik koma ekki fram í fréttinni sem birtist á vefsíðu KKÍ í dag.

Karfan.is leitaði viðbragða hjá Agnari Mar Gunnarssyni sem var starfandi liðsstjóri hjá Njarðvíkurliðinu umræddan dag og kvaðst Agnar furðu lostinn yfir vinnubrögðum aganefndarinnar. 

„Leikmönnunum lenti saman eins og gengur og gerist en engin högg eða neitt á þá leið, menn komu strax á milli. Þeir sem voru á leiknum og þeir leikmenn sem ég hef rætt við eru bara undrandi,“ sagði Agnar þegar Karfan.is leitaði viðbragða hjá honum í kvöld. „Hvorugur var með skæting eða annað slíkt við dómara eftir dóm og gengu báðir beint af velli.“

Agnar telur dóminn allt of þungann: „Já, tveimur leikjum of þungur fyrir báða leikmennina.“

Njarðvíkingar unnu leikinn 100-83 og verma toppsætið í 2. deild karla ásamt Leikni Reykjavík. 

Mynd úr safni/ Agnar Mar að störfum

Fréttir
- Auglýsing -