spot_img
HomeFréttirLeikur án varna og Snæfell heim með stigin

Leikur án varna og Snæfell heim með stigin

FSu er fjarri því að vera besta varnarlið deildarinnar og þar var engin breyting á í kvöld. Þessi leikur í kvöld gekk út á að skora meira en andstæðingurinn en stressa sig minna á því að hindra það að hann skoraði á móti. Fór svo að Snæfell skoraði meira og fór heim með sigurinn 97-110 og tvö mikilvæg stig.

 

FSu fór vel af stað í leiknum. Boltinn gekk vel, liðið hitti og barðist grimmt í fráköstunum. Snæfell var lengur í gang en í 2. hluta snérust hlutverkin alveg við. Snæfell negldi niður hverju þristinum á fætur öðrum og voru 7/10 fyrir utan þriggja stiga línuna í 2. hluta, en 13/17 í heildina. Snæfell fékk mikið af opnum skotum en mörg þeirra vegna dapra samskipta FSu í vörn. Snæfell skoraði tæplega 2 stig í sókn eða 1,96 sem er ekki góð einkunn fyrir FSu vörnina.

 

51-55 var staðan í hálfleik og ljóst að mikið yrði skorið í leiknum ef varnarleikurinn héldi svona áfram. Svo varð á en bæði lið hittu afbragðsvel í 3. hluta og menn að hvíla sig í vörn. Snæfell jók muninn í 8 stig fram að lokum 3. hluta.

 

Á síðustu 10 mínútum leiksins var uppgjöfin alger hjá heimamönnum og þeir farnir að sætta sig við erfið skot héðan og þaðan á vellinum. FSu reyndi aðeins 5 skot í teignum í fjórða hluta og skoraði úr 3 þeirra. Þrátt fyrir að hafa skorað 36 stig í teignum fram að því. Snæfell notaði teiginn mun betur og skoraði 48 stiga sinna þar.

 

Hraður leikur og laus við allan varnarleik endaði með sigri Snæfells 97-110. Skilvirkni beggja liða var mikil í sókn eða á bilinu 1,2-1,3 stig per sókn eins og við er að búast þar sem varnarleikur er ekki spilaður. Ætli FSu sér áframhaldandi líf í þessari deild verður liðið að fara að spila vörn. Sóknarleikurinn er ekki vandamál hjá þeim.

 

Sherrod Wright átti góðan leik fyrir Snæfell með 35 stig, 16 fráköst og 6 stoðsendingar. Sigurður Þorvaldsson átti frábæran leik, nýstiginn upp úr veikindum, með 14 stig og 3/7 í þristum. Hjá FSu var nýjasti leikmaður þeirra Chris Woods stigahæstur af bekknum með 34 stig og 9 fráköst. Chris Caird átti einnig góðan leik með 21 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar. 

 

Tölfræði leiks

 

Mynd úr safni: Sherrod Wright var drjúgur fyrir Snæfell í kvöld. (Þorsteinn Eyþórsson)

Fréttir
- Auglýsing -