Valsmenn héldu uppteknum hætti í 1. deildinni í kvöld og gjörsigruðu Reyni Sandgerði 102-53. Valsmenn pressuðu allan völlinn, svo gott sem allan leikinn og hættu ekki þó forskotið væri komið yfir 40 stig og nokkrar mínútur til leiksloka. Slíkan ákafa hefur undirritaður ekki orðið vitni að áður og var auðvelt að finna til með Reyni sem áttu erfitt uppdráttar og voru ekki ánægðir með framlag dómaranna(skiljanlega), sem var þó enginn örlagavaldur í leiknum. Stigahæstur í liði Vals í kvöld var Jamie Stewart með 21 stig og 8 fráköst en næstu menn voru Benedikt Blöndal og Illugi Auðunnsson með 17 stig hvor. Illugi gerði sér svo lítið fyrir og hirti 16 fráköst í leiknum og varði 2 skot. Hjá Reyni voru Guðmundur Auðunn Gunnarsson og Kristján Þór Smárason stigahæstir með 8 stig hvor en næstu menn voru Atli Karl Sigurbjartsson og Hinrik Albertsson með 7 stig hvor.
Valsmenn byrjuðu leikinn betur og skoruðu 7 fyrstu stig leiksins þangað til að Rúnar Ágúst Pálsson setti þrist fyrir gestina og kom þeim í gírinn. Liðsmenn Rúnar svöruðu heldur betur kallinu því Valsmenn skoruðu ekki stig næstu 3 mínúturnar og Reynir náði tveggja stiga forskoti í stöðunni 7-9. Valsmenn tóku þá við sér og skoruðu næstu 9 stig leiksins og kaflaskiptingin því fullkomnuð. Leikurinn var mjög óskipulagður og mikið um mistök á báða bóga. Gestirnir áttu seinustu stig leikhlutans sem endaði 16-12 Valsmönnum í vil.
Valsmenn byrjuðu annan leikhluta mun betur og höfðu náð forskotinu upp í 12 stig þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum, 27-15. Hægt og rólega bættu þeir í það forskot og höfðu náð því upp í 15 stig þegar leikhlutinn var hálfnaður, 34-19. Leikurinn var í raun ótrúlega hraður og mistökin eftir því, Valsmenn pressuðu allan völlinn sem gerði gestunum nokkrum sinnum erfitt fyrir. Þeir létu þó ekki keyra yfir sig og komu örlítið til baka í stöðunni 37-26 en Valsmenn áttu svöruðu því um hæl og voru komnir með 16 stiga forskot þegar flautað var til hálfleiks, 45-29.
Stigahæstur í liði Vals í hálfleik var Benedikt Blöndal með 12 stig en næstu menn voru Jamei Stewart með 10 stig og Illugi Steingrímsson með 5 stig. Hjá Reyni var Atli Karl Sigurbjartsson og Hinrik Albertsson með 7 stig hvor og Rúnar Ágúst Pálsson með 6 stig.
Valsmenn sýndu mátt sinn í upphafi seinni hálfleiks og keyrðu hraðan upp sem reyndist Reyni erfitt. Valsmenn juku forskotið hægt og rólega og höfðu náð því upp í 20 stig strax eftir tvær mínútur af leik. Það forskot jókst bara eftir því sem leið á leikhlutan og Valsmenn náðu mest 27 stiga forskoti í stöðunni 67-40. Kormákur Arthursson átti síðasta orðið í þriðja leikhluta með þrist eftir laglega leikfléttu Valsmanna sem fór tvisvar illa með svæðisvörn gestanna. Forskot Vals var þá komið í 30 stig í fyrsta skiptið i leiknum, 75-45.
Valsmenn gerðu sér lítið fyrir og skoruðu fyrstu 7 stig fjórða leikhluta og gáfu hvergi eftir í pressunni. Það virtist lítill kraftur eftir í gestunum og Valsmenn voru komnir með 43 stiga forskot þegar 5 mínútur voru til leiksloka, 92-49. Valsmenn voru ennþá hungraðir og sóttu alla lausa bolta og alltof mörg sóknarfráköst til þess að gestirnir ættu möguleika á því að minnka muninn eitthvað. Illugarnir tveir í Val afrekuðu það að verja sitt hvort skotið í sömu sókn Reynis undir lok leiksins sem segir sitt um ákafa Valsmanna þrátt fyrir rausnarlegt forskot. Leikurinn endaði svo með 49 stiga sigri Vals, 102-53.
Umfjöllun: [email protected]
Mynd úr safni: Torfi Magnússon