KR marði nauman 96-103 útisigur á nýliðum FSu í Domino´s-deild karla í kvöld. FSu var lengi vel við stýrið en KR tók af þeim stjórnartaumana á lokasprettinum og vann að lokum seiglusigur. Chris Woods og Chris Caird eru að verða eitruð tvenna í röðum FSu en enn eitraðri tvennu var að finna í herbúðum KR í kvöld í þeim Helga og Craion. Heiðarleg atlaga hjá nýliðunum en KR þekkir spennandi lokaspretti eins og handarbakið á sér og í því lá munurinn að stórum hluta.
Heimamenn í Iðu sendu niður þrjá þrista á upphafsmínútum leiksins og það gaf þeim byr undir báða vængi en með þá Woods og Caird í góðum gír komst FSu í 20-11 eftir fyrstu fimm mínútur leiksins. Heimamenn voru ekkert hættir heldu settu 35 stig á KR í fyrsta leikhluta og leiddu 35-19 að honum loknum. Glimrandi spilamennska hjá FSu gegn Íslandsmeisturum síðustu tveggja ára.
KR opnaði annan leikhluta með 7-0 rispu en FSu lét það ekki slá sig út af laginu, Caird kom FSu í 53-33 og jók muninn í 20 stig en Selfyssingar voru 7/10 í þristum í fyrri háflleik! KR vatt sér í svæðisvörn enda þeir varnartilburðir sem þeir höfðu reynt til þessa hvorki fugl né fiskur. Nú hægðist eitthvað á heimamönnum og KR skoraði níu síðustu stig fyrri hálfleiks og minnkuðu muninn í 56-46 fyrir hálfleik þegar Brynjar Þór Björnsson setti stemmnings-flautuþrist fyrir gestina.
Chris „Just average“ Woods var með 22 stig og 6 fráköst í háflleik og Caird með 18 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar í liði FSu. Hjá KR var það Helgi Magnússon sem hafði gert 16 stig í háflleik komandi af tréverkinu og Craion honum næstur með 14 stig og 8 fráköst. Þessi 16 stig Helga komu á aðeins tíu mínútum!
Skotnýting liðanna í hálfleik
FSu: Tveggja 57,9% – þriggja 70% og víti 83,3%
KR: Tveggja 39,6% – þriggja 37,5% og víti 50%
Michael Craion héldu engin bönd í upphafi síðari hálfleiks, KR dældi inn á hann og jaxlinn skilaði sínu. Ef við teljum með dembuna hjá KR undir lok fyrri háflleiks náðu röndóttir 2-18 áhlaupi á FSu og voru fljótir að gera leik úr þessu að nýju þó þeir hafi lent 20 stigum undir í fyrri háflleik.
KR færði aukna hörku inn í síðari hálfleikinn og það tók FSu smá tíma að venjast því en heimamenn voru enn að skjóta vel. Þórir Guðmundur minnkaði muninn í 76-72 þegar 39 sekúndur voru eftir af þriðja leikhluta með þriggja stiga körfu og undir lokin var flautukarfa tekin af gestunum og FSu leiddi því 78-72 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. KR vann þriðja leikhluta 26-22 og forvitnilegt að sjá hvort heimamenn í FSu hefðu taugar í að stíga í vænginn með Íslandsmeisturunum í fjórða leikhluta.
Reynt lið eins og KR vílar það ekki fyrir sér að fara járn í járn á lokasprettinum, FSu öllu óreyndari á þeim endanum og það sást. KR naut sín á ögurstundum en FSu voru að flýta skotum sínum og þeir Woods og Caird sem höfðu verið grimmir framan af í liði Selfyssinga sáust minna þegar mest á reyndi. Michael Craion átti síðari hálfleikinn og kom KR í 89-100 með glæsilegri troðslu og sigur KR í höfn. Lokatölur 96-103 KR í vil.
Michael Craion átti magnaðan dag í liði KR með 39 stig og 18 fráköst og Helgi Magnússon var ekki mikið síðri með 27 stig, 9 fráköst og 3 stoðsendingar. Cristopher Caird gerði 30 stig í liði FSu, tók 9 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Næstur honum var Chris Woods með 28 stig, 14 fráköst og 4 stoðsendingar. Ægir Þór Steinarsson átti nokkra lipra spretti í kvöld hjá KR og þá var Bjarni Geir Gunnarsson einnig að sýna nokkrar sparihliðar í liði FSu.
FSu fær prik fyrir tvo síðustu leiki sína, sigur úti gegn Keflavík og naumt tap gegn Íslandsmeisturum síðustu tveggja ára. KR mótorinn var gangsettur með handafli þeirra Helga og Craion en það mátti ekki mikið seinna vera því framan af voru röndóttir ansi ólíkir sjálfum sér.
Myndir og umfjöllun/ [email protected]