Bændurnir í býflugnabúinu tóku á móti Hlíðarendadrengjum á Akranesi í kvöld. Valsmenn voru fyrir leikinn á toppi deildarinnar með 100% vinningshlutfall, ósigraðir í 6 leikjum, heldur betur góður árangur það. Heimamenn í ÍA voru í 6. sæti með 50% vinningshlutfall með 3 sigra og 3 töp. Það var því mikið undir fyrir heimamenn í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni á meðan gestirnir vildu ólmir halda sér frá úrslitakeppnissæti, með því að halda toppsætinu útaf fyrir sig.
Leikurinn í kvöld var gríðarlega skemmtilegur fyrir áhorfendur, leikurinn var jafn alls 14 sinnum, liðin skiptust 16 sinnum á forystu í leiknum, mesta forysta ÍA var 4 stig. Valsmenn náður aftur á móti mest 10 stiga forystu, 54-64 og var það í upphafi 4. leikhluta. Þá héldu margir að í ljós væri að koma munurinn á toppliðinu og liðinu í 6. sæti. En heimamenn voru á allt öðru máli, bitu í skjaldarendur skoruðu 14-4 og jöfnuðu leikinn í 68-68 um miðbik loka leikhlutans. Þá var eins og liðin væru ekkert að fara að skora neitt mikið fleiri stig, Valsmenn settu þó niður víti og komust stigi yfir en ÍA svarið með tveimur stigum og komust í 70-69. Valsmenn ákváðu þá að svara í sömu mynt og komust í 70-71. Skagamenn héldu sínu striki og komust í 72-71 og Valsmenn fóru á vítalínuna, hittu fyrra skotinu og jöfnuðu leikinn en klikkuðu svo á síðara skotinu. Skagamenn héldu þá af stað í sína síðustu sókn í leiknum, Sean Tate gerði árás að körfu Valsmanna sem brutu á honum í skoti þegar 3,9 sekúntur voru eftir af leiknum. Sean setti bæði skotin niður og staðan orðin 74-72. Valsmenn tóku leikhlé, stilltu upp í loka skot en Skagamenn brugðu á það ráð að brjóta þegar tæp sekúnta var eftir af leiknum. Því miður fyrir Val fóru bæði skotin forgörðum, Skagamenn náðu frákastinu og lokaflautan gall, fyrsta tap Valsmanna á tímabilinu staðreynd, lokatölur 74-72 fyrir ÍA og mikill fögnuður heimamanna braust út, enda menn búnir að býða eftir að geta sýnt sitt rétta andlit á heimavelli eftir tapið gegn frændum okkar úr Borgarnesi.
Hjá heimamönnum fór mest fyrir Seam Tate en hann skoraði 32 stig en Áskell Jónsson átti einnig mjög góðan leik með 14 stig og 4/6 í þristum. Fannar var svo að vanda með tvöfalda tvennu 15 stig og 13 fráköst.
Hjá gestunum var Jamie Jamil Stewart Jr. stigahæstur með 28 stig auk þess að taka 9 fráköst og gefa 3 stoðsendingar.
Nánari tölfræði úr leiknum má nálgast hér.
Síðustu leikir liðanna fyrir jóla- og áramótafrí verða svo föstudaginn 18. desember þegar ÍA heimsækir Tómas Hermannsson og lærisveina hans í Ármanni á meðan Valsarar taka á móti Ísfirðingum í KFÍ.
Mynd: Sean Tate með atlögu að körfunni. (Jónas H. Ottósson)