spot_img
HomeFréttirTopplið Keflavíkur hafði betur gegn baráttuglöðum ÍR-ingum

Topplið Keflavíkur hafði betur gegn baráttuglöðum ÍR-ingum

ÍR-ingar og Keflvíkingar hafa lengi vel eldað grátt silfur saman. Viðureignir þessara liða hafa oft verið mjög skemmtilegar en undanfarin ár hefur einstefnan verið í átt til Reykjanesbæjar. ÍR-ingar hafa fengið nýjan þjálfara og – að því er virðist – ferskan meðvind í Hellinum. ÍR hafði sigrað tvo af þremur síðustu leikjum sínum fyrir þennan og ekki laust við að eftirvænting Breiðhyltingar væri tölverð fyrir leik. 

 

Körfuknattleiksdeild ÍR heiðraði einn af sonum félagsins þetta kvöld, en það er Sveinbjörn Claessen sem hefur leikið 200 leiki fyrir félagið. Rúmlega helmingur af því sem Eiríkur Önundarson skilaði til félagsins á sínum ferli en framlag Sveinbjörns er það næstmesta á eftir Eiríki. Undirritaður og Karfan.is óska Sveinbirni til hamingju með áfangann. Við búumst við treyju númer 10 við hlið Eiríks uppi á vegg í Hellinum á næstu árum.

 

ÍR-ingar brunuðu af stað, beint úr startholunum. Hittu þokkalega þó að þriggja stiga skotið væri ekki að detta. Keflvíkingar voru seinir af stað og latir í fráköstunum, auk þess að tapa boltanum ítrekað eða 9 sinnum í fyrri hálfleik. ÍR náði 5 stiga forystu í 1. fjórðung en hlutverkin snérust við strax í 2. leikhluta. 

 

Keflvíkingar rifu sig í gang í sókninni. Hittu mun betur en voru enn að missa sóknarfráköst til ÍR-inga sem höfðu náð 7 slíkum fyrir hálfleik. Staðan í hálfeik var 43-41 fyrir heimamönnum í ÍR.

 

Skilvirkni sóknarleiks Keflvíkinga batnaði til muna í 3. hluta en þeir skoruðu 1,24 stig á móti hverri sókn en klaufagangur þeirra með boltann hélt áfram. 14 tapaðir boltar hjá gestunum eftir 30 mínútur og 10 sóknarfráköst til ÍR-inga. ÍR-ingar hófu að skjóta mun meira fyrir utan en þeir höfðu gert í leiknum en aðeins 30% þeirra rötuðu niður í 3. hluta. Keflavík náði að minnka muninn niður í 1 stig áður en seinustu 10 mínútur leiksins hófust.

 

Þá hófst skothríð beggja liða utan þriggja stiga línunnar en bæði lið voru að hitta mjög vel. Hefðu ÍR-ingar hins vegar nýtt tækifæri sín við körfuna mun betur hefði þessi leikur farið á allt annan veg en raun bar vitni. ÍR setti niður 1 af 8 tilraunum sínum innan þriggja stiga línunnar. Það reyndist banabiti liðsins sem skoraði aðeins 0,87 stig per sókn síðustu 10 mínúturnar. Valur Orri og Ágúst Orrason sigldu svo skipinu í höfn með góðri spilamennsku og mikilvæg stig á töfluna fyrir topplið Keflavíkur.

 

Earl Brown leiddi Keflvíkinga með 27 stig og 6 fráköst en Valur Orri fylgdi fast á eftir með 24 stig og 6 fráköst einnig. Þar á eftir kom Guðmundur Jónsson með 14 stig. Hjá ÍR var Jonathan Mitchell stigahæstur með 24 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar. Oddur Kristjánsson kom þar á eftir með 23 stig en Sveinbjörn bætti svo við 12 stigum. 

 

ÍR-Keflavík 87-95 (24-19, 19-22, 25-26, 19-28)
ÍR: Jonathan Mitchell 24/11 fráköst/5 stoðsendingar, Oddur Rúnar Kristjánsson 23, Sveinbjörn Claessen 12/4 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 9/9 fráköst, Kristján Pétur Andrésson 8, Vilhjálmur Theodór Jónsson 6, Trausti Eiríksson 5/4 fráköst, Sæþór Elmar Kristjánsson 0, Daði Berg Grétarsson 0, Eyjólfur Ásberg Halldórsson 0, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 0, Stefán Ásgeir Arnarsson 0.
Keflavík: Earl Brown Jr. 27/6 fráköst, Valur Orri Valsson 24/6 fráköst, Guðmundur Jónsson 14/4 fráköst, Ágúst Orrason 9, Davíð Páll Hermannsson 9/4 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 5, Reggie Dupree 4, Andrés Kristleifsson 2, Magnús Már Traustason 1/6 fráköst, Arnór Ingi Ingvason 0, Ragnar Gerald Albertsson 0, Andri Daníelsson 0.

 

Myndasafn:  Davíð Eldur

 

Mynd:  Valur Orri Valsson átti flottan leik fyrir Keflvíkinga í Hellinum í kvöld. (Davíð Eldur)

Fréttir
- Auglýsing -