spot_img
HomeFréttirFyrsti körfuboltaleikur allra tíma endaði í slagsmálum

Fyrsti körfuboltaleikur allra tíma endaði í slagsmálum

Fyrir skömmu fannst upptaka af viðtali við Dr. James Naismith, faðir körfuboltans frá 1939. Viðtalið var tekið fyrir útvarpsþáttinn "We the People" sem var sendur út í New York borg og var í tilefni af því að Naismith var viðstaddur leik í Madison Square Garden. 

 

Naismith var spurður að því hvers vegna hann hafi fundið upp íþróttina og hann svaraði því að árið 1891 hafi hann verið leikfimikennari í skóla einum í Kansas. Einn veturinn gerði svo slæman storm að ekki var hundi út sigandi dögum saman og varð þurftu nemendur því að húka inni á meðan. Þetta leiddi til þess að drengirnir fóru að tugta hvorn annan til innan skólans. Þá tók Naismith til sinna ráða.

 

Hann negldi upp tvær ferskjukörfur á sinn hvorn vegginn í salnum, skipti þeim upp í tvö 9 manna lið og rétti drengjunum gamlan fótbolta. Einu leiðbeiningarnar sem hann gaf þeim var að kasta boltanum ofan í körfu andstæðingsins eins oft og þeir gætu. Því næst blés hann í flautu og fyrsti körfuboltaleikur allra tíma hófst. Honum hins vegar lauk á allt annan veg en doktorinn hafði hugsað sér.

 

Drengirnir slógu og spörkuðu í hvorn annan og tækluðu til að hindra framgang þeirra sem boltann höfðu þar til allt logaði í slagsmálum á vellinum. "It was certainly murder," eins og hann lýsti sjálfur en einn drengjanna hafði rotast, annar farið úr axlarlið og nokkrir enduðu með glóðaraugu.

 

Naismith dó þó ekki ráðalaus, heldur bætti við nokkrum reglum en þó einni sem mestu máli skipti:  Það má ekki hlaupa með boltann. Það eyddi út tæklingunum og líkamsmeiðingunum og úr varð íþróttin sem við fylgjumst með í dag.

 

Tíu árum síðar var körfubolti spilaður um öll Bandaríkin og árið 1936 var leikurinn fyrst spilaður á Ólympíuleiknunum.

 

Stórmerkilegt viðtal við þennan hugmyndaríka íþróttakennara og mikilvæg heimild um uppruna íþróttarinnar.

 

Heimild: University of Kansas

Fréttir
- Auglýsing -