Körfuknattleiksdeild Hauka hefur sagt upp samningi við Stephen Madison og mun hann því ekki leika með liðinu gegn Hetti í kvöld. Þetta staðfesti Ívar Ásgrímsson, þjálfari meistaraflokks Hauka í samtali við Karfan.is fyrr í dag.
"Við erum að leita að leikmanni sem er sterkari inni í teignum. Okkur vantar meiri sóknarþyngd þar og niðri á blokkinni," sagði Ívar. Hann sagði félagið ekki vera búið að ganga frá samkomulagi við nýjan erlendan leikmann en sú vinna væri í gangi og þau mál ættu að skýrast von bráðar.
Madison lék 10 leiki fyrir Hauka í vetur og leiddi liðið í flestum tölfræði þáttum; með 32 mínútur, 21 stig, 8 fráköst og 22 í framlag að meðaltali í leik.