Margir þekkja til hinna skemmtilegu Molduxamóta en sjálfa Molduxana þekkja kannski færri. Þeir hafa engu að síður sent frá sér tilkynningu um stuðning sinn við KKÍ en hann er kominn til af þeim sökum að Molduxunum sveið dræm mæting sinna manna til Berlínar á EuroBasket en tilkynningu Molduxanna má lesa í heild sinni hér að neðan.
Fréttatilkynning – Ályktun Allsherjarþings 2015.
Allsherjarþing Molduxa var haldið þann 3. október 2015. Fór það vel fram undir styrkri stjórn Vignis LITLA Þingforseta.
Þar var samþykkt eftirfarandi ályktun:
Allsherjarþing Molduxa árið 2015, harmar að félagsmenn hafi ekki fjölmennt til Berlínar og stutt við íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik í úrslitakeppni á stórmóti og heitum því að slíkt muni aldrei henda aftur. Berum við því fulla ábyrgð á gengi liðsins í úrslitum Evrópumótsins í Þýskalandi.
Vegna þessarar snautlegu framkomu okkar höfum við ákveðið að ráðstafa öllum rekstrarhagnaði síðasta starfsárs til KKÍ og eyrnamerkja hann til frekari uppbyggingar A-landsliðs karla og hvetjum þá til frekari dáða. Íslandi allt.