Logi Gunnars var sáttur með frammistöðuna eftir leik. “Við erum að spila fína vörn og gott að halda andstæðingunum í 71 stigi núna tvo leiki í röð. Á móti Haukum í síðustu umferð og svo Grindavík heima núna.” Logi bjóst einnig við erfiðum leik í kvöld. “Við vissum að Grindvík eru góðir og þeir voru að spila vel í byrjun móts án Kana þannig að við bjuggumst við þeim sterkum hér í kvöld. Þeir voru alltaf að narta í hælana á okkur og það tekur á að vita af svona sterku liði sem getur alltaf komið til baka, en við skelltum í lás í vörninni í 4. leikhluta og erum að hjálpa vel í varnarleiknum að þá gerum við þeim þetta erfitt fyrir”. Logi segir uppleggið ekki hafa verið að skjóta svona mikið fyrir utan. “Nei það gerist bara í svona leikjum, við erum með góðar skyttur og þegar við erum að ná að keyra inn í teigin og finna menn fyrir utan að þá tökum við þau skot.” Logi er bjartsýnn á framhaldið. “Mér líst bara vel á framhaldið og held að við séum að byggja á einhverju miklu og stóru hérna í Njarðvík og held að það séu bjartir tímar næstu vikur og mánuði”.