Nú rétt í þessu staðfesti Teitur Örlygsson aðstoðarþjálfari UMFN að Njarðvík og ÍR hefðu komist að samkomulagi um vistaskipti Odds Kristjánssonar bakvarðar til þeirra grænklæddu. Mikið hefur á síðustu dögum verið rætt og ritað um þessi vistaskipti sem nú eru staðfest. Oddur hefur verið einn af burðarásum liðs ÍR í vetur og skorað um 18 stig á leik fyrir þá Breiðhyltinga.
"Við komumst að samkomulagi við þá ÍR-inga um að Oddur kæmi og spilaði með Njarðvík í vetur. Það vita svo sem allir hvað Oddur kemur með til borðsins. Flottur körfuboltamaður sem styrkir enn frekar okkar hóp og í raun þá stöðu sem hefur plagað okkur að vissu leyti í vetur. Nú getum við spilað mönnum eins og Loga og Hauk Helga betur í sínar stöður og getum leyft okkur að hvíla þá meira en við höfum viljað. Leit af erlendum leikmanni stendur enn yfir og við viljum vanda okkur þar. " sagði Teitur í snörpu samtali við Karfan.is
Njarðvíkingar eru í 3-6 sæti deildarinnar með 14 stig.