spot_img
HomeFréttirLífið eftir EM: Jón Arnór

Lífið eftir EM: Jón Arnór

Strákarnir úr leikmannahópnum á EuroBasket í sumar svara nokkrum spurningum um undirbúninginn, upplifunina og hvað tekur við hjá þeim á nýju ári.

 

Nafn: Jón Arnór Stefánsson    

Aldur: 33

Fjöldi landsleikja: 82

Félagslið: Valencia

 

Var undirbúningurinn mjög frábrugðinn því sem við myndum oftar en ekki kalla “minni” verkefni? 

Hann var helst frábrugðinn að því leytinu til að við spiluðum fleiri æfingaleiki en við höfum áður gert. Ég held að það hafi reynst okkur mjög mikilvægt og hjálpað okkur við að stilla saman strengi fyrir Berlín. Það er nefnilega tvennt ólíkt að æfa og spila leiki.  

Hvernig minnist þú álagsins við undirbúning EM og meðan á því stóð? 

Undibúningurinn var þéttur og við vorum mikið á ferðalagi. Ég var slæmur í skrokknum og gat lítið tekið þátt í æfingamótunum sem gerði það að verkum að ég var orðinn svolítið órólegur undir lok undirbúningsins. Þegar við mættum til Berlínar þá fann maður spennuna stigmagnast og hún náði hámarki hjá mér þegar við tókum fyrstu æfinguna í höllinni. Augljóslega var mesta álagið á okkur í Berlín og erfitt bæði andlega og líkamlega að spila eins marga leiki á fáum dögum. Við vorum sem betur fer með glæsilegt sjúkraþjálfarateymi með okkur, Jóa og Pétur, sem stóð sig frábærlega og sá til þess að allir væru í topp standi. 

 

Aðkoma þjóðarinnar, funduð þið fyrir áhuga almennings á verkefninu?

Persónulega hef ég aldrei fundið fyrir meiri áhuga frá almenningi og fjölmiðlum en í aðdraganda og kjölfar þessa móts. Það er frábært að sjá hversu mikla umfjöllun körfuboltinn er að fá um þessar mundir því hann á það svo fyllilega skilið.  

 

Hvernig var að vinna úr pressunni sem fylgdi þessu?

Persónulega fann ég fyrir mikilli pressu að standa mig og það var oft erfitt að ráða við allar þær tilfinningar sem börðust um inni í manni. Að mörgu leyti held ég að pressan sem við fundum fyrir hafi komið frá okkur sjálfum. Við vildum spila vel og sanna fyrir öllum að við ættum heima á þessu sviði og í dag horfum við allir rosalega stoltir til baka. Til að fá sem mest út úr þessu móti þá vissum við að við yrðum að standa okkur vel, og því fylgir mikil pressa. Upplifunin var á endanum útópísk, en hún hefði orðið allt öðruvísi hefðum við tapað öllum leikjunum með 40-50 stigum. 

 

En að umgangast stórstjörnunar, hvernig var það?

Bara eins og að umgangast Ragga Nat. 

 

Fannst þér meira stress fylgja undankepninni, og því að þurfa að tryggja sér sæti á lokamótinu, heldur en sjálfu mótinu?

Það var mjög ólík pressa sem ég upplifði í undankeppninni og á mótinu. Fyir mitt leyti var hún meiri í Berlín því í undankeppninni ætlaðist engin til þess að við kæmumst nokkurn tímann inn á stórmót. 

 

Hvernig ert þú að melta/meta verkefnið nú þegar nokkuð er liðið frá Berlín?

Ég er mjög stoltur og þakklátur fyrir að fá að upplifa þetta magnaða ævintýri með mínum vinum og liðsfélögum og öllu því frábæra fólki sem hjálpaði til við að gera þetta allt að veruleika. Berlín var ákveðið móment og það liggur gríðarlega mikil vinna að baki hjá liðinu og sambandinu. En það er sú vinna, vinasamböndin sem maður hefur myndað og allar frábæru minningarnar sem mun alltaf standa upp úr, kannski meira en mómentið sjálft.  

 

Breytti þetta verkefni þínum framtíðarplönum í körfunni?

Nei, ég get ekki sagt það. Framtíðarplönin voru aldrei ákveðin. 

 

Hvernig var að koma aftur heim og í hið daglega líf?

Það tók tíma að koma sér niður á jörðina eftir Berlín. Það var svo mikil eftirvænting og langur aðdragandi að þessu móti og svo var það allt í einu búið. Það tók tíma og mikið af innblástursvideo-um á youtube og bókum til að finna leikleðina aftur 🙂

 

Hvað tekur við núna?

Nýtt og spennandi ár.  

 

Stefnir þú á EuroBasket 2017?

Þegar maður prófar og upplifir eitthvað nýtt sem lætur manni líða mjög vel á einhvern hátt, þá er hætt við því að maður fari að elta og reyna að finna þá tilfinningu aftur.

Fréttir
- Auglýsing -