Strákarnir úr leikmannahópnum á EuroBasket í sumar svara nokkrum spurningum um undirbúninginn, upplifunina og hvað tekur við hjá þeim á nýju ári.
Nafn: Logi Gunnarsson
Aldur: 34
Fjöldi landsleikja: 121
Félagslið: Njarðvík
Var undirbúningurinn mjög frábrugðinn því sem við myndum oftar en ekki kalla “minni” verkefni?
Við höfum nú oft tekið löng sumur og mikið af leikjum en munurinn núna var að við spiluðum eingöngu við topplið sem voru einnig að fara á Eurobasket. Þetta var reyndar farið að slaga í jafn marga leiki og tímabilið er hér heima. Í heildina voru þetta 16 leikir.
Hvernig minnist þú álagsins við undirbúning EM og meðan á því stóð?
Álagið var náttúrulega mikið en það var samt fylgst vel með okkur og passað uppá að við yrðum ekki of þreyttir. Á meðan keppninni stóð spiluðum við náttúrulega mjög þétt og höfðum verið á æfingamótum áður en við komum til Berlínar þannig að álagið var meira en við höfðum áður verið í .
Aðkoma þjóðarinnar, funduð þið fyrir áhuga almennings á verkefninu?
Já ég myndi segja það, það var mikið talað um körfubolta hér heima bæði fyrir mótið og eftir mótið. Mikil jákvæðni í garð liðsins og íslenska körfuboltans.
Hvernig var að vinna úr pressunni sem fylgdi þessu?
Það var svo sem ekki nein pressa að mínu mati, við nutum þess bara í botn að spila við þá bestu og ég held að það hafi verið ein af þeim ástæðum að okkur gekk vel á móti þessum stórþjóðum.
En að umgangast stórstjörnurnar, hvernig var það?
Það var náttúrulega svolítið skrítið að vera í kringum þá á hótelinu og vera með þeim í matsalnum . Þetta eru samt bara körfuboltamenn eins og við og voru mættir þarna til að spila. Það var gaman að takast á við þá á vellinum.
Fannst þér meira stress fylgja undankeppninni, og því að þurfa að tryggja sér sæti á lokamótinu, heldur en sjálfu mótinu?
Ég fann aldrei fyrir neinu slíku , kannski er það af því að við erum margir búnir að vera saman í liðinu í kringum 15 ár, það hefur kannski smitast í þá yngri því það var aldrei neitt stress , hvort sem það var í undankeppninni eða á mótinu sjálfu.
Hvernig ert þú að melta/meta verkefnið nú þegar nokkuð er liðið frá Berlín?
Maður bara hugsar til baka um það með bros á vör , þetta var einstök upplifun og við fórum í alla leikina til að vinna, það hugarfar stendur hvað mest uppúr hjá mér.
Breytti þetta verkefni þínum framtíðarplönum í körfunni?
Nei kannski ekki mikið , ekki nema það að ég vill vera fleiri ár í þessu liði og halda þessu gangandi sem við erum byrjaðir á.
Hvernig var að koma aftur heim og í hið daglega líf?
Ég hélt að það yrði svolítið skrítið en það var það ekki. Ég held að það hafi verið því maður vissi að við spiluðum vel þó við unnum ekki leik , en af því að við spiluðum eins og við gerðum hafði maður enga eftirsjá.
Hvað tekur við núna?
Núna er tímabilið hér heima á fullu og svo fer að líða að undankeppninni fyrir næsta Eurobasket sem verður í enda sumars og í haust
Stefnir þú á EuroBasket 2017?
Já klárlega