Breiðablik hefur ráðið til sín tvo nýja atvinnumenn en karlalið félagsins hefur gert samning við Jamarco Warren og þá hefur kvennalið félagsins samið við Latavia Demspey. Warren var á mála hjá ÍA á síðustu leiktíð en Dempsey er leika í fyrsta sinn á Íslandi, hún er þó ekki fyrsti fjölskyldumeðlimurinn til að afreka það því bróðir hennar Myron Dempsey lék með Tindastól á síðustu leiktíð.
Bæði lið félagsins hafa til þessa á tímabilinu ekki verið með erlenda atvinnumenn innan sinna raða. Karlalið Blika er sem stendur í 7. sæti 1. deildar karla með 3 sigra og 5 tapleiki en kvennalið félagsins er í 3. sæti í 1. deild kvenna með 3 sigra og 6 tapleiki.
Árni Eggert Harðarson þjálfari kvennaliðs félagsins sagði við Karfan.is í dag að Kópavogsklúbburinn teldi liðið sitt eiga heima í efstu deild næsta vetur og um ókomin ár og því hefði verið farið í ráðninguna á Dempsey:
„1. deildin hefur sjaldan eða aldrei verið jafnsterk og í ár og oft hefur bara vantað herslumuninn í vetur. Við teljum að með þessari ráðingu munum við fá hann og geta tryggt okkur annað af tveimur sætum úrslitakeppninnar.
Það voru ýmis spurningamerki í upphafi vetrar. Nýjir leikmenn hafa hinsvegar smollið vel inn í hópinn og styrkt hann auk þess sem ungir leikmenn hafa tekið á sig nýja og meiri ábyrgð í vetur, axlað hana vel og við teljum þá vera tilbúna í stærri verkefni.“
Hér má nálgast samantektarmyndband af Dempsey