spot_img
HomeFréttirJólasteikin sat í liðunum í Síkinu

Jólasteikin sat í liðunum í Síkinu

Tindastóll hafði sigur gegn ÍR í fyrsta leik ársins í Dominos deildinni í Síkinu í kvöld.  Menn höfðu á orði að jólasteikin sæti greinilega ennþá í leikmönnum beggja liða því hittnin var slæm og lítið skorað í leik kvöldsins.  Þó skrifast það einnig á ákafan varnarleik beggja liða sem sýndu að baráttugleðin var til staðar þótt eitthvað vantaði upp á sóknarlega.

Heimamenn byrjuðu betur og komust í 4-0 en ÍR-ingar börðust vel og Sveinbjörn kom þeim í 6-9 eftir 5 mínútna leik.  Þegar staðan varð svo 8-13 fyrir gestina stuttu seinna var þjálfara Stólanna nóg boðið og tók leikhlé.  Það hressti menn aðeins og víti frá Flake tryggði nauma forystu eftir fyrsta leikhluta 18-17.
 
Annar leikhluti fór líka illa af stað sóknarlega og ÍR skoraði ekki körfu fyrstu 3 mínúturnar en Sveinbjörn minnkaði þá muninn í 22-19 með góðu skoti.  Mitchell var eini maðurinn á vellinum sem var að hitta nokkuð eðlilega og hann var kominn með 12 stig í hálfleik, staðan 36-32 fyrir heimamenn sem náðu ekki að hrista gestina af sér.
 
Seinni hálfleikurinn var svipaður barningur áfram og ekki margt sem gladdi augað fyrir utan tröllatroðslu Björgvins Hafþórs undir lokin þegar hann tróð yfir hálft Tindastólsliðið og fékk villu að auki.  Þau tilþrif komu þó of seint því heimamenn kláruðu leikinn í rólegheitunum af vítalínunni síðustu 4 mínúturnar.
 
Hill var heitastur Stóla, skoraði 25 stig og reif niður 12 fráköst og Pétur Rúnar var með 15 stig og 5 stoðsendingar.  Lewis skilaði 17 stigum en hefur oft verið frískari.  Mitchell var öflugastur gestanna með 26 stig og Sveinbjörn Claessen bætti 18 stigum við.  Breiddin í liði heimamanna var töluvert meiri en hjá ÍR og það hafði sitt að segja því þeir fengu 16 stig af bekknum á móti aðeins þremur hjá ÍR.

Tindastóll-ÍR 79-68 (18-17, 18-15, 20-21, 23-15)  
Tindastóll
: Jerome Hill 25/12 fráköst, Darrel Keith Lewis 17/5 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 15/5 stoðsendingar, Darrell Flake 9/7 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 4, Ingvi Rafn Ingvarsson 3, Viðar Ágústsson 2, Sigurður Páll Stefánsson 2, Svavar Atli Birgisson 2, Helgi Freyr Margeirsson 0, Finnbogi Bjarnason 0, Hannes Ingi Másson 0.
ÍR: Jonathan Mitchell 26/7 fráköst, Sveinbjörn Claessen 18, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 12/7 stoðsendingar, Vilhjálmur Theodór Jónsson 5, Daníel Freyr Friðriksson 4, Hákon Örn Hjálmarsson 3, Kristján Pétur Andrésson 0, Trausti Eiríksson 0, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 0, Sæþór Elmar Kristjánsson 0.

Borce – ÍR


Helgi – Tindastóll

Mynd og umfjöllun/ Hjalti Árnason

Fréttir
- Auglýsing -