KR-ingar fengu Garðbæingana bláu í heimsókn í Vesturbæinn í kvöld. Stjörnumenn gerðu öllum, nema KR-ingum, þann greiða að vinna fyrri deildarleik liðanna í fyrstu umferðinni sem ætti að brýna heimamenn til dáða. Stjörnumenn virðast oft kunna vel við sig á móti röndóttum og hafa í það minnsta veitt þeim harða samkeppni undanfarin ár.
Marvin opnaði leikinn með flottum þristi en Craion svaraði með snöggum fjórum stigum og átti eftir að vera andstæðingum sínum erfiður ljár í þúfu eins og alltaf. Ægir byrjaði einnig af miklum krafti og kom KR í 12-6. Gestirnir svöruðu hins vegar vel fyrir sig og Tommi Tomm og Marvin fóru fyrir sínum mönnum. Eftir fyrsta leikhlutann höfðu gestirnir sett 20 gegn 16 stigum KR og aðeins þrír heimamenn komnir á blað.
Stjörnumenn héldu uppteknum hætti frameftir öðrum leikhluta og allmargir að leggja í púkkið. Þegar rúmar 3 mínútur voru eftir var staðan 21-32 fyrir gestina og enn bara þrír KR-ingar komnir á blað! Ég hugsa að fleiri en undirritaður byðu svolítið eftir því að heimamenn kæmu sér úr hlutlausa gírnum og færu að byrja leikinn og þeir gerðu það að nokkru leyti það sem eftir lifði leikhlutans, sýndu smá sýnishorn af hinni kæfandi KR-vörn og minnkuðu muninn í 33-35 fyrir hálfleik.
KR-ingar voru aðeins rúma mínútu að koma sér yfir 38-37 í byrjun síðari hálfleiks. Það hljómar e.t.v. ekki í takt við ofangreind skrif en Stjörnumenn höfðu ekki beint sýnt neinn stjörnuleik fram að þessu og héldu áfram að gera galin klaufamistök og misstu boltann ítrekað. Það virtust KR-ingar loksins nenna að nýta sér en meistari Shouse hinn reynslumikli bardagahundur dró sitt lið áfram og að þriðja leikhluta loknum voru Ægir og Craion 57-51 yfir gegn Stjörnumönnum.
Margir bjuggust vafalaust við að sjá KR sigla tveim stigum í hús í síðasta fjórðungi enda áttu heimamenn nánast allt liðið inni ennþá! Svo fór hins vegar alls ekki, áfram héldu Stjörnumenn að tapa boltum, það vantaði ekki, en minnkuðu muninn í 60-59 þegar 6 mínútur lifðu leiks. Ágúst setti svo risa þrist sem kom við á tunglinu áður en hann fór ofan í og kom gestunum í 60-62! Þarna fóru leikar loksins að æsast svolítið en stemmarinn hafði verið frekar lágstemmdur á allan hátt framan af. Pavel stimplaði sig inn með þristi og Brilli ,,clutch“ með annan en Tommi og Marvin svöruðu og staðan 70-72 þegar 2 mínútur voru eftir. Coleman kom sér svo útaf með 5 villur eftir að hafa fengið á sig klaufalega sóknarvillu. Það breytti því ekki að KR-ingar klúðruðu næstu tveimur sóknum og Marvin jók forystuna í 70-74 af línunni. Ægir náði hins vegar að vinna boltann af meistara Shouse þegar 40 sekúndur voru eftir og endaði á línunni og minnkaði muninn í 72-74. Stjörnumenn nýttu ekki næstu sókn og þegar 5 sekúndur voru eftir braut Tómas Þórður í svolitlu adrenalínskasti á Pavel. Pavel og vítalínan eru hins vegar engir sérstakir mátar og seinna skotið geigaði og eftir darraðadans endaði boltinn í höndunum á Shouse og 73-74 sigur Stjörnumanna undarleg staðreynd.
Er yfir lauk höfðu Stjörnumenn tapað 27 boltum…og þeir unnu KR í DHL-höllinni! Má það?? Það þarf einhvern talnaglöggan mann til að útskýra þessi undarlegheit, undirritaður getur það ekki.
Marvin var verulega góður í kvöld með 19 stig, frábæra nýtingu og 7 fráköst. Margir lögðu sitt af mörkum og liðið hafði greinilega trú á verkefninu. Ægir var frábær í leiknum með 19 stig og 7 gullfallegar stoðsendingar. Craion skilaði dæmigerðum 23 stigum og 14 fráköstum – það er engu líkara en að Ægir og Craion hafi verið einir á æfingum KR-liðsins í jólafríinu…
Umfjöllun/ Kári Viðarsson
Mynd/ Hörður D. Tulinius