Undirritaður sat í blaðamannastúku Hertz hellisins, við hlið lifandi goðsagnar í íslenskum körfubolta og saman fylgdumst við með leik ÍR og FSu í Domino's deild karla í gærkvöldi. Kristinn Friðriksson heitir maðurinn og þarf vart að kynna fyrir körfuboltaáhugamönnum, nema hvað hann ritar af sinni alkunnu snilld körfuboltafréttir fyrir Morgunblaðið.
Um miðbik annars leikhluta hafði ÍR sett niður hvert þriggja stiga skotið á fætur öðru og höfðu tveir leikmenn, Sveinbjörn Claessen og Kristján Pétur Andrésson leitt þá stórskotahríð. Þegar hann er að detta þá virðist hringurinn vera risastór og öll skot eru galopin. Þetta þekkir Kristinn og það vita þeir sem horfðu á hann spila hér áður.
Kristján Pétur, frá Stykkishólmi, fékk boltann vel fyrir utan þriggja stiga línuna eða rétt innan við tvo metra frá henni. Þegar höndin er heit þá er þetta bara hið fínasta færi. Enginn á móti honum og miðið stillt. Skotið fór upp en skall af hringnum með látum.
Við þetta fussaði Kristinn og hristi höfuðið eins og hann væri móðgaður fyrir hönd íþróttarinnar og allra sem hana leika.
Þá glutraði undirritaður klaufalega út úr sér: "Þú hefðir nú tekið þetta skot líka, Kiddi." Þá svarar þessi goðsögn í lifanda lífi sem þekkt er fyrir að taka eitt knattrak inn fyrir miðju áður en að skjóta boltanum (og iðulega rataði hann rétta leið), á mjög hógværan máta:
"Hann er bara ekki ég!"
Munnlegt rothögg, takk fyrir túkall… ég rata út.
Mynd úr safni: Kristinn Friðriksson að fara að láta einhvern heyra það.