spot_img
HomeFréttirBarningur í Glacial Höllinni en KR hafði það af

Barningur í Glacial Höllinni en KR hafði það af

Fjórða leikinn í röð heldur KR til Þorlákshafnar og nælir sér í sigur. Íslandsmeistarar síðustu tveggja ára þurftu að hafa fyrir þessum en lokatölur voru 73-81 þar sem röndóttum tókst að þvinga fram myndarlegan bunka af mistökum í ranni heimamanna. Yfir allar 40 mínútur leiksins voru það þessi litlu atriði sem hlóðust upp í myndarlegan haug sem skildu að á milli liðanna í lokin. Michael Craion fór fyrir KR með 25 stig og 11 fráköst en Vance Michael Hall gerði 30 stig, tók 4 fráköst og gaf 3 stoðsendingar í liði Þórs.

KR voru ekkert að tvínóna við hlutina heldur mættu með vörnina klára í slaginn og gerðu 14 fyrstu stig leiksins. Heimamenn gátu vart keypt körfu uns Grétar Ingi Erlendsson mætti á blokkina og fór að láta finna fyrir sér. Með Grétar í broddi fylkingar tók Þór 16-6 rispu og fyrsta leikhluta lauk í stöðunni 16-20 fyrir KR. 

 

Annar leikhluti var öllu eðlilegri og Þór tókst að jafna metin 29-29 en þá sleit KR sig frá að nýju og leiddi 35-40 í hálfleik. Grétar Ingi Erlendsson var með 13 stig hjá Þór í leikhléi en Michael Craion 11 í liði KR en Craion fór vel af stað en skoraði ekkert í öðrum leikhluta.

Síðari háflleikur var alltaf leikur en KR var við stýrið, heimamenn í Þór hótuðu nokkrum sinnum að komast nærri og jafnvel jafna leikinn en það varð aldrei neitt úr þeim góðu tilraunum. Vörn KR var þétt allan leikinn og hvert smáatriði sem KR gat refsað fyrir var nýtt nánast í þaula. KR leiddi 57-64 að loknum þriðja leikhluta. 

 

Í kvöld var Þór með 25 tapaða bolta, á köflum í fjórða leikhluta voru þessi fjölmörgu atriði eins og tapaðir boltar, sniðskot sem vildu ekki niður og dræm einbeiting á köflum í sendingum það sem varð Þór að falli og að sama skapi sá hlutur sem KR gerði vel á sínum enda. Vörnin var flott en röndótta vélin hefur oft verið smurðari á sóknarendanum. 

 

Ragnar Nathanaelsson splæsti í stemmutroðslu og minnkaði muninn í 69-76 þegar tvær mínútur voru til leiksloka og bauð heim þeirri hugmynd að Þór gæti jafnvel farið og stolið stigunum tveimur. Ægir Þór Steinarsson, sem var frumkveikjan að varnarleik KR í kvöld, setti niður stökkskot í stöðunni 71-76 þegar hálf mínútua lifði leiks og innsiglaði málið. Lokatölur 73-81 KR í vil. 

 

Michael Craion gerði 25 stig í liði KR í kvöld og var með 8 fráköst, Brynjar Þór Björnsson bætti við 14 stigum, Helgi og Pavel splæstu svo í 10 hvor og Darri Hilmarsson skoraði 6 stig gegn sínum fyrrum félögum í Þór. Hjá heimamönnum var Vance Michael Hall með 30 stig og Grétar Ingi Erlendsson lauk leik með 13 stig, skoraði ekki stig í síðari hálfleik. Við fleiri var að sakast en Þorsteinn Már Ragnarsson, Baldur Þór Ragnarsson og Ragnar Örn Bragason voru allir saman með 4 stig en þeirra framlag hefði þurft að vera veglegra í kvöld. Halldór Garðar Hermannsson gerði 9 stig í liði Þórs og átti fína spretti og Davíð Arnar Ágústsson var með 6 stig. 

 

Eftir leikir kvöldsins er KR áfram í 2. sæti deildarinnar og nú með 20 stig en Þór Þorlákshöfn í 6. sætinu með 14 stig. 

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn

 

Umfjöllun og myndir/ [email protected] 

Fréttir
- Auglýsing -