spot_img
HomeFréttirSeiglusigur undir 18 ára drengja gegn Eistum

Seiglusigur undir 18 ára drengja gegn Eistum

Undir 18 ára drengjalið Íslands lagði Eistland í dag í öðrum leik sínum á Norðurlandamótinu í Södertalje. Þrátt fyrir að Ísland hafi leitt nánast allan leikinn var hann nokkuð jafn inn í fjórða leikhlutann. Ísland gerir þá vel í að klára og komast í burtu með sigurinn, 85-70, en liðið hefur nú unnið fyrstu tvo leiki sína á mótinu.

Byrjunarlið Íslands

Lars Erik, Kristján Fannar, Þórður Freyr, Hilmir og Friðrik Leó.

Gangur leiks

Íslenska liðið fer vel af stað í leiknum. Eftir að hafa fengið þrist á sig í fyrstu sókn Eistlands heldur vörn þeirra vel fram í seinni hluta fjórðungsins, en staðan eftir fimm mínútur er 11-3. Eistar ná undir lok fyrsta fjórðungs að vinna niður forskotið, en Ísland er þó skrefinu á undan að leikhluta loknum, 20-16. Leikurinn er svo í miklu jafnvægi undir lok fyrri hálfleiksins. Eistland gerir nokkuð vel að keyra í bakið á fjölmörgum töpuðum boltum Íslands, en á einhvern óskiljanlegan hátt ná þeir að halda forystu sinni til búningsherbergja í hálfleik, 39-34.

Stigahæstir fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Kristján Fannar Ingólfsson með 13 stig og Friðrik Leó Curtis var kominn með 10 stig.

Ísland byrjar seinni hálfleikinn af miklum krafti og kemur forystu sinni í 14 stig um miðjan þriðja leikhlutann. Botninn virðist þó detta úr leik þeirra undir lok fjórðungsins og er munurinn aðeins 4 stig fyrir lokaleikhlutann, 57-53. Með stórum þristum frá Þórði Frey og Brynjari Kára nær Ísland aðeins að slíta sig frá Eistlandi í upphafi fjórða fjórðungs. Ná svo að halda forskotinu í tveggja stafa tölu inn í brak mínútur leiksins, en staðan þegar um 3 mínútur eru eftir er 75-64. Undir lokin ná þeir svo að sigla nokkuð þægilegum 15 stiga sigur í höfn, 80-75.

Atkvæðamestir

Bestir í liði Íslands í dag voru Friðrik Leó Curtis með 18 stig, 9 fráköst, 3 stoðsendingar og Kristján Fannar Ingólfsson með 21 stig, 6 fráköst og 3 varin skot.

Hvað svo?

Næsti leikur drengjanna er á morgun kl. 11:00 gegn Danmörku.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gunnar Jónatansson)

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil

Fréttir
- Auglýsing -