Karfan heldur hér áfram að taka saman bestu byrjunarlið hvers félags fyrir sig. Áður höfðum við tekið fyrir Keflavík, Tindastól og Njarðvík. Nú er röðin hinsvegar komin að Haukum úr Hafnarfirði. Félaginu óx fiskur um hrygg á níunda áratug síðustu aldar, þar sem að uppskeran var tveir bikarmeistaratitlar og einn stór. Því má vera að niðurstaðan sé sú sem hún er, þ.e. að flestir leikmenn þessa úrvalsliðs hafi spilað með liðinu á og í kringum þann tíma. Síðan þá hafa þeir aðeins unnið einn titil, en hafa þó næstum sleitulaust verið í hóp þeirra bestu og eru alveg bókað með eitthvað það skemmtilegasta og efnilegasta lið landsins í dag.
Aðferðin sem við sættumst á að nota var að tala við 10-15 stuðningsmenn hvers liðs og passað var upp á að hafa þá öllum aldri þannig að hver kynslóð hefði sitt val. Álitsgjafar eru reglulegir gestir á leikjum liðanna og/eða "innan hús" menn sem þekkja vel til sem velja sitt byrjunarlið, þjálfara og sjötta leikmann. Með þessu vali létu stuðningsmennirnir svo fylgja smá texta fyrir hvern leikmann sem við svo klipptum niður og settum með.
Okkar skoðun (Karfan.is) er engin og við tökum okkur hliðarsæti í þessu titekna verkefni. Við tökum aðeins saman þau atkvæði sem við fengum sem í flestum tilvikum voru frekar afgerandi fyrir þá sem um ræðir hér.
Hinsvegar, þar sem enginn marktækur munur var á hver væri í raun sjötti maður þessa liðs. Gripum við til þess ráðs að hafa bæði Henning Henningsson og Pétur Ingvarsson fyrsta inn af bekknum fyrir þetta lið.
Haukar
Stofnað: 1931
Íslandsmeistaratitlar: 1
Bikarmeistaratitlar: 3
Bakvörður: Pálmar Sigurðsson
Mynd: Þjóðviljinn
Leikir: 229
Tölfræðimoli: Þann 20. febrúar árið 1986 skoraði Pálmar 48 stig í leik á móti KR.
Einn af bestu leikmönnum Íslands frá upphafi frábær skytta og leiðtogi Íslandsmeistaraliðs Hauka árið 1988, ásamt því að þjálfa liðið þá átti hann hvað tryggja Íslandsmeistaratitilinn í Hafnarfjörð með 43 stig á móti Njarðvík í tvíframlengdum leik. Aron Pálmarsson heldur síðan uppi heiðri föður síns í handboltanum. Þess má geta að Pálmar er annar þeirra tveggja sem fékk flest atkvæðin, hinn var Jón Arnar Ingvarsson.
Hvað sögðu álitsgjafarnir:
"Stjórnaði gullaldar liði Hauka og ein besta skytta allra tíma"
"Sendingar hans fram völlinn í hraðarupphlaupum voru algjört yndi"
"Lang besta skyttan sem hefur nokkurn timann klæðst rauðu treyjunni"
"Gerði aðra betri í kringum sig"
"Stórkostlegur skotmaður og frábær leikmaður"
"Hver man ekki eftir sýningunni sem hann hélt á móti Njarðvík í úrslitunum 1988"
"Valinn besti leikmaður Norðurlanda á sínum tíma"
"Mikill leiðtogi"
"Átti það til að klára leikina upp á sínar eigin spítur"
"Svakalegur skotmaður"
"Skipti ekki máli hvar á vellinum það var"
"Frábær leikstjórnandi og sóknar maður"
"Einn af tveimur bestu leikmönnum Hauka frá upphafi"
"Einn besti leikstjórnandi í sögu íslensks körfubolta"
"Verst að hann missti annan son sinn í handboltann og sá eldri hætti allt of fljótt í körfu"
"LEGEND"
Bakvörður: Jón Arnar Ingvarsson
Mynd: MBL
Leikir: 340
Tölfræðimoli: Þann 26. október árið 1991 tók Jón 18 fráköst í leik á móti Tindastól.
Partur af þeirri fjölskyldu sem hefur haft hvað mest áhrif á körfuboltann í Hafnarfirði með Pétur bróður sinn, föður og syni sínum. Algjör yfirburðamaður í íslenskum körfubolta á sínum tíma. Klárlega einn besti leikmaður íslensks körfubolta frá upphafi. Svakalegur skorari innan teigs sem utan með afburðaleikskilning, sem sést hvað best í stoðsendingafjölda hans á ferilinum sem telja hátt í 2000 stykki. Kári sonur hans passar sig að halda heiðri pabba gamla uppi og fer að óbreyttu að banka á þennan lista eftir ófá ár. Þess má geta að Jón er annar þeirra tveggja sem flest atkvæði fékk, hinn var Pálmar Sigurðsson.
Hvað sögðu álitsgjafarnir:
"Óeigingjarnasti leikstjórnandi Íslands"
"Jafnvígur á báðar hendur, gat keyrt upp að körfu og var „deadly“ skytta"
"Gerði aðra betri í kringum sig"
"Einn allra besti leikstjórnandi sem Íslendingar hafa átt"
"Frábær skorari og frákastaði afburðavel af bakverði að vera"
"Frábær leiðtogi"
"Afar útsjónarsamur"
"Kóngurinn"
"Einhver besti bakvörður Íslands, gat bæði verið skorari og leikstjórnandi"
"Einn af tveimur bestu leikmönnum Hauka frá upphafi"
"Sonur hans Kári verður ekki síðri"
"Besti leikstjórnarndi deildarinnar"
"Leikskilningurinn var svakalegur"
"Maðurinn vissi alltaf hvar maður var á vellinum"
"Skoraði fannst manni stundum að villd"
"Lang besti leikstjórnandi í sögu Hauka"
"Einn besti sóknarmaður sem Ísland hefur alið"
"Ef maður var ekki með á nótunum fékk maður boltann í hausinn"
"Var leiðtogi innan sem utan vallar"
"Frábær leikstjórnandi og sóknar maður"
"Gat allt"
Miðherji: Ívar Decarsta Webster
Mynd: Fjarðarpósturinn
Leikir: 156
Tölfræðimoli: Í 156 leikjum í deildinni reyndi Ívar aldrei oftar en 1 þriggja stiga skot í leik.
210 cm miðherji sem setti mikinn svip á íslenskan körfubolta á sínum tíma. Hann var lykilmaður undir körfunni í liði íslandsmeistara Hauka 1988 og varði fjölmörg skot í hverjum leik. Hann skoraði ekki alltaf mikið en hafði mjög gott auga fyrir spili og var lunkinn að finna samherja sína fyrir utan teig
Hvað sögðu álitsgjafarnir:
"Stórhættulegur miðherji"
"Eignaði sér teiginn á báðum endum vallarins"
"Hræddi líftóruna úr andstæðingum sem voguðu sér að koma nálægt teignum"
"Kom með nýjar víddir í körfuboltann á Íslandi"
"Gleymi því aldrei þegar hann yngdist um 15 ár á einni sekúndu og blokkaði Friðrik Ragnarsson á lokasekúndum fyrri framlengingarinnar í úrslitaleiknum ´88"
"Frábær varnarmaður, litríkur karakter"
"Mjög drjúgur fyrir Hauka"
"Einn fyrsti og besti stóri maður deildarinnar"
"Átti stóran þátt í Íslandsmeistaratitlinum 88"
"Ekki margir sem réðu við risann"
"Stór og öflugur í teignum"
Framherji: Sigfús Örvar Gizurarson
Mynd: DV
Leikir: 193
Tölfræðimoli: Þann 17. desember 1995 gaf Sigfús 12 stoðsendingar í Ljónagryfjunni í leik á móti Njarðvík.
„Gulldrengjabaninn“ Einn besti varnarmaður sem Íslendingar hafa alið af sér, gat dekkað allar stöður á vellinum. Skoraði af harðfylgi og lét allt og alla finna fyrir sér.
Hvað sögðu álitsgjafarnir:
"Einn allra besti varnarmaður sem Ísland hefur átt"
"Spilaði vörn sem jaðraði við „einelti“
"Klassa-varnarmaður"
"Með sóknar-hæfileika og leikskilning á háu stigi"
"Frábær karakter, fyrirmynd og keppnismaður"
"Frábær varnarmaður og traustur sóknarmaður"
Framherji: Ívar Ásgrímsson
Mynd: Þjóðviljinn
Leikir: 306
Tölfræðimoli: Þann 13. mars 1994 gaf Ívar 11 stoðsendingar í leik gegn Val.
Verið hluti af öllum stórtitlum sem ratað hafa í Hafnarfjörðinn. Frábær alhliðaleikmaður á sínum tíma sem kallaði ekki allt ömmu sína. Þess má geta að Ívar fékk bæði atkvæði sem leikmaður og þjálfari.
Hvað sögðu álitsgjafarnir:
"Gat leyst nokkur hlutverk á vellinum"
"Einkar góður skotmaður"
"Fjölhæfur leikmaður"
"Körfuboltaheili"
"Mjög duglegur"
"Var ótrúlega klókur leikmaður, bæði fyrir utan teig og á póstinum"
"Hefur verið viðloðinn alla titla Haukaliðsins"
"Góður liðsmaður"
"Góður varnarmaður"
"Gat skorað grimmt"
"Frábær leikmaður"
"Er ennþá bara ansi góður"
Sjötti Maður: Pétur Ingvarsson
Mynd: MBL
Leikir: 336
Tölfræðimoli: Þann 23. febrúar 1997 stal Pétur 10 boltum af KFÍ.
Fjölhæfur og ósérhlýfinn leikmaður sem barðist um allan völl. Viltur sóknarlega en á hans degi var hann óstöðvandi.
Hvað sögðu álitsgjafarnir:
"Höslari sem leggur allt í leikinn"
"Frábær sóknarmaður"
"Einstakur baráttuhundur og frábær varnarmaður"
"Mikill þekking á leiknum"
"Áhugi"
Sjötti maður: Henning Freyr Henningsson
Mynd: Þjóðviljinn
Leikir: 271
Tölfræðimoli: Þann 17. nóvember 1994 skoraði Henning 40 stig í leik gegn ÍA.
Partur af gullaldarliði Hauka. Frábær varnarmaður, hættulegur baráttuhundur sem lét andstæðinga sína finna fyrir því á báðum endum vallarins og átti ófáar körfunnar með sinni fallegu vinstri handar stroku.
Hvað sögðu álitsgjafarnir:
"Fyrirliði í Haukaliðinu sem vann eina ísl.m.titilinn hingað til"
"Mikill baráttujaxl sem gafst aldrei upp"
"Frábær varnarmaður og mikill liðsmaður"
"Vinnuþjarkur sem væri frábær að koma af bekknum og gæti breytt leikjum"
"Maðurinn sem kenndi mér að maður þarf ekki að vera góður í körfubolta til að hoppa á boltann"
Þjálfari: Einar Bollason
Mynd: Tíminn
Tók við „kjúklingum“ og skilaði af sér hönum sem unnu tvo bikarmeistaratitla og Íslandsmeistaratitil. Leikmenn frá honum hafa verið viðriðnir alla titla sem Haukar hafa unnið.
Hvað sögðu álitsgjafarnir:
"Stundum sagt að hann hafi gert kjúklingana í gullaldarliði Hauka að fleygum fuglum"
"Gerði Hauka að bikarmeisturum tvisvar sinnum og var afar litríkur og farsæll þjálfari"
"Allar æfingar vel undirbúnar"
"Kom Haukum á blaðið"
"Var fremsti þjálfari Íslands"
"Skilaði árangri"
Aðrir sem fengu atkvæði voru: Guðmundur Bragason, Marel Guðlaugsson, Sævar Haraldsson, Emil Barja, Kári Jónsson, Ingimar Jónsson, Predrag Bojovic, Reynir Kristjánsson og Ingvar Jónsson.