Leikmaðurinn Helgi Björn Einarsson mun klára tímabilið með Breiðablik. Fyrri hluta vetrarins hafði hann leikið með Hetti á Egilstöðum, eða allt þangað til að hann baðst lausnar þaðan nú um miðjan mánuðinn. Fyrir það hafði Helgi verið að skila 7 stigum, 6 fráköstum og 2 stoðsendingum í leik fyrir liðið.
Við spurðum Helga aðeins útí tildrög þessara vistaskipta.
Afhverju ákvaðstu að yfirgefa Hött?
Ég var að vinna í 9 tíma á dag og þjálfa 2 flokka og svo var maður alltaf í burtu til að spila leiki og ég var bara aldrei heima og sá þar af leiðandi fjölskylduna mína lítið sem ekkert. En þetta var skemmtilegt ævintýri og við kynntumst helling af góðu fólki. Það býr æðislegt fólk á Egilstöðum. En að lokum varð ég bara að hugsa hvað væri best fyrir mig, ég var ekki góður í skrokknum eftir bílslys og vinnan og álagið í körfuni var ekki að henta mér. Svo var bara ekki gaman á æfingum, lítið flæði og mikið um stopp og ég kólnaði og komst sjaldan í gang á æfingum. Neikvætt andrúmsloft og mér persónulega leið ekki vel í hópnum. En ég veit að núna þegar að pabbastrákurinn að austan hefur enga mömmustráka að sunnan í liðinu þá vinnur Höttur rest og heldur sér uppi.
Afhverju ákvaðstu að fara til Breiðabliks?
Ég æfði aðeins með Breiðablik í sumar og hef verið að fylgjast með þeim í vetur og verið í smá sambandi við þá, svo þegar að ég hætti á Egilstöðum þá spjölluðum við Jónas(þjálfari Breiðabliks) bara saman og ég ákvað að taka slaginn með þeim, ég ætla bara að reyna gera mitt besta til að liðið græði á því að hafa mig. Þetta er líka flott tækifæri fyrir mig til að sýna að ég er ekki búin!