Lórenz Óli Ólasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur bar nýverið atvik sem átti sér stað í leik Grindavíkur og Hauka, undir dómaranefnd KKÍ. Grindvíkingar sendu myndband af atvikinu til nefndarinnar þar sem Helena Sverrisdóttir, leikmaður Hauka sést bregða fæti fyrir Whitney Frazier, leikmann Grindavíkur.
Lórenz segir dómaranefndina hafa svarað því að "það sé ekki hægt að taka afstöðu til þess hvort það hafi þurft að dæma eitthvað á þetta." Dómaranefnd hafi hins vegar lagt línuna, að mati formannsins, með því að vísa máli Ingunnar Emblu Kristínardóttur, sem þá lék með Keflavík, til aganefndar sem dæmdi hana í tveggja leikja bann fyrir samskonar brot,.
"Það er ekki nokkur spurning að Helena sparkar í Whitney í myndbandinu og þá hlýtur maður að spyrja sig hvort að það sé farið að skipta máli hvað þú heitir fyrir dómaranefnd því spark er bara spark og þeir hafa sett línuna með það."
Karfan.is hafði samband við dómaranefnd KKÍ og bar þessi ummæli undir fulltrúa hennar en þar fengust aðeins þau svör að málið hafi verið tekið til efnislegrar meðferðar hjá nefndinni og niðurstaðan sé þessi.
Helena Sverrisdóttir vék sér ekki undan þegar leitað var svara hjá henni. Hún sagði að heitt hafi verið í hamsi í þessum leik. Hún hefði verið nýbúin að fá olnboga frá Frazier og þegar þarna kemur við sögu lenda þær í samstuði og Helena lendir á gólfinu.
"Þegar ég er síðan að fara að standa upp og Whitney ætlar að hlaupa yfir mig fæ ég einhvern leiðinda púka í mig og reyni að "tækla" hana. Algjörlega heimskulegt af minni hálfu en bara í þessa split sekúndu missti ég hausinn."
Helena segist blessunarlega hafa ekki hitt í Frazier en hún hafi látið pirring og reiði leiða sig á stað sem hún vilji alls ekki vera á. "Strax eftir leikinn hafði ég samband við Daníel þjálfara Grindavíkur og baðst innilegrar afsökunar á þessu atviki og bað hann að skila því til Whitney líka." Hún segist heldur ekki stolt af framkomu sinni og þykir þetta leitt en telur sig hafa leyst úr málinu eftir bestu getu.