ÍR-ingar spiluðu vel framan af í leik þeirra gegn Þór Þorlákshöfn í Hertz hellinum í kvöld. Eitthvað hins vegar vantaði til þess að reka smiðshöggið á verkið og klára leikinn.
"Þetta var furðulegur leikur," sagði Sveinbjörn Claessen í spjalli við Karfan.is eftir leik. "Mikill varnarleikur eins og sést á tölfræði leiksins. Bæði lið með 40% nýtingu og 27 tapaðir boltar milli liðanna."
Leikurinn var jafn þar til um 8 mínútur voru eftir af leiknum en þá fóru leiðir liðanna að skilja.
"Við misstum bara hausinn. Það vantaði einfaldlega áræðni og hugrekki til að sækja á og klára dæmið."
Sveinbjörn sagði Einar Árna þjálfara Þórs hafa augljóslega unnið sína heimavinnu vel. "Hann lagði þetta hárrétt upp og náði að ýta okkur út úr okkar leik."
"Raggi Nat gerði samt gæfumuninn fyrir þá," bætti hann við. "Það er rosalega erfitt að athafna sig í teignum með 210 cm þarna fyrir. Hann átti bara flottan leik."