spot_img
HomeFréttirDHL tölfræðin: Skot í Keflavík með 15 sekúndna millibili

DHL tölfræðin: Skot í Keflavík með 15 sekúndna millibili

243 stig voru skoruð í TM höllinni í gærkvöldi í leik Keflavíkur og Snæfells í Domino's deild karla. Keflavík sigraði leikinn með 131 stigi gegn 112 frá Snæfelli.

 

Samkvæmt tölfræði KKÍ voru leiknar 224 sóknir (e. possessions) í leiknum. Sú tala er reiknuð út frá tölfræði leiksins. 40 mínútna leikur er 2.400 sekúndur alls af leiktíma. Það má að því gefnu áætla að hver sókn hafi verið að meðaltali 10,7 sekúndur. Höfum í huga að skotklukkan er 24 sekúndur.

 

Þessu til samanburðar gerði Karfan.is stutta könnun á meðaltali sókna sem leiknar hafa verið (samkvæmt tölfræði KKÍ) í síðustu 20 leikjum deildarinnar. Meðalfjöldi sókna í þessum leikjum er 190 eða 34 færri en í leik Keflavíkur og Snæfells. Það voru því spilaðar tæplega 18% fleiri sóknir í þessum leik en eðlilegt þykir. Það eru tæplega 14 mínútur af leiktíma miðað við að 24 sekúndna sóknir séu leiknar.

 

Meðallengd sókna í "venjulegum leik" í sekúndum er því 12,6 sekúndur.

 

Samkvæmt útreikningum Karfan.is, sem taka tillit til þess að sóknarfráköst hefji ekki nýja sókn, lék hvort lið öðru hvoru megin við 96 sóknir og leikhraði (e. pace) sá sami. Keflavík skoraði 1,36 stig að meðaltali í hverri sókn samkvæmt þeim gildum og Snæfell 1,17. Gott þykir að skora um 1 stig að meðaltali í sókn samkvæmt þessum mælikvarða.

 

Í 2. leikhluta skoruðu Keflvíkingar 39 stig á 10 mínútum. Á þessum tíma skoruðu Keflvíkingar 1,70 stig að meðaltali í hverri sókn, sem er fáheyrt í efstu deild. Snæfell gaf þeim þó lítið eftir og skoraði 37 stig í fjórðungnum eða 1,62 stig að meðaltali í sókn.

 

Tekin voru 162 skot utan af velli í þessum leik. Það gerir 1 skot með á tæplega 15 sekúndna millibili af leiktíma. Rúmlega 36 sekúndur af leiktíma liðu milli þriggja stiga skota hjá báðum liðum. Rúmlega 1 mínúta og 17 sekúndur af leiktíma liðu frá því ein þriggja stiga karfa var skoruð þar til önnur fór niður.

Fréttir
- Auglýsing -