spot_img
HomeFréttirBarningur í Mustad höllinni skilaði heimasigri

Barningur í Mustad höllinni skilaði heimasigri

Grindavík og Stjarnan mættust í Mustad höllinni í kvöld í leik sem einkenndist af mikilli baráttu og lágu stigaskori. Staðan eftir 1. leikhluta var 16-15 og hálfleikstölur 37-32. Leikurinn var fast leikinn og mikið um pústra og pirring, þá sérstaklega Stjörnumegin. Grindvíkingar fóru langt á baráttunni í kvöld, unnu frákastabaráttuna 48-37 og allir leikmenn sem komu inná skiluðu mikilli baráttu og góðu framlagi.

 

Stjörnumenn réðu illa við Chuck Garcia í teignum í kvöld. Í hvert skipti sem hann fékk boltann voru 2-3 varnarmenn mættir, og þá helst ekki til að spila vörn heldur til að berja á kappanum, enda tók hann 16 víti í leiknum. Hann setti að vísu ekki nema 10 og þar af fóru tvö forgörðum þar sem dómarar leiksins mátu það sem svo að hann hefði stigið á línuna, en áhorfendur mátu það sem svo að um svokallaðan tittlingaskít hefði verið að ræða og voru ekki sáttir við smámunasemina hjá dómurunum. Chuck passar væntanlega betur uppá bífurnar í næsta leik.

 

Grindvíkingar lögðu mikla áherslu á að stoppa Justin Shouse og hengdu marga leikmenn á hann eins og frakka. Hinn ungi (1998) Ingvi Þór Guðmundsson fékk að spreyta sig á því hlutverki í 2. leikhluta en uppskar 3 villur á 36 sekúndum og settist beint aftur á bekkinn. Þá tók Kristófer Breki Gylfason (1997) við sama hlutverki og skilaði sínu virkilega vel. Justin virtist láta þessa stífu vörn fara töluvert í taugarnar á sér. Hann fann ekki taktinn í sóknarleiknum (3/14 í skotum) og endaði svo á því að yfirgefa völlinn með 5 villur.

 

Justin settu engu að síður met í þessum leik en hann er nú sá leikmaður sem gefið hefur flestar stoðsendingar í sögu efstu deildar, 1394 talsins, og sló þar með met Jóns Arnars Ingvarssonar. Stoðsendingarnar urðu reyndar ekki nema 2 í leiknum og það dugði til, en Justin hefði eflaust valið annað leik til að bæta þetta met ef hann hefði mátt ráða. Fyrir þennan leik höfðu Stjörnumenn unnið 4 leiki í röð en Grindvíkingar virðast vera með gott tak á þeim í Mustad höllinni.

 

Lokatölur leiksins urðu 78-65 og Jóhann Ólafsson þjálfari Grindavíkur hafði orð á því eftir leik að sóknarleikur liðsins hafi á köflum verið hálf tilviljanakenndur. Það endurspeglast í stoðsendingunum hjá liðinu en þar var miðherjinn Chuck Garcia með þær flestar, 4 talsins. Chuck og Jón Axel voru atkvæðamestir hjá Grindavík með 22 og 25 stig og þá tók Jón Axel einnig 9 fráköst. 

 

Hjá Stjörnunni áttu flestir leikmenn afar dapran dag. Coleman var stigahæstur með 14 stig og 9 fráköst en sóknarleikurinn var í tómu tjóni hjá liðinu. Þeir settu 4 þrista í 22 tilraunum, sem verður að teljast í lægra lagi fyrir lið með skyttur eins og Shouse og Tómas Tómasson innanborðs. Þristarnir voru svo sem ekki að detta hjá Grindavík heldur, aðeins 2 í 15 skotum, sem gerir alls 6 þrista í 37 skotum í leiknum sem er ekki tölfræði sem áhorfendur í Grindavík eru vanir.

 

Grindvíkingar mjakast með þessum sigri nær sæti í úrslitakeppninni, en þeir eiga erfiðan leik á mánudaginn gegn Keflvíkingum í Sláturhúsinu.

 

Texti: Siggeir Ævarsson

Myndir:  Skúli Sig.

Fréttir
- Auglýsing -