spot_img
HomeFréttirStjarnan sigraði í Þorlákshöfn þrátt fyrir áföll

Stjarnan sigraði í Þorlákshöfn þrátt fyrir áföll

Í kvöld fór fram leikur Þórs frá Þorlákshöfn og Stjörnunnar í Domino´s deild karla. Fyrir leikinn var Stjarnan í þriðja sæti deildarinnar með 22 stig og Þór í því fjórða með 20 stig. Með sigri gætu Þórsarar komið sér upp fyrir Stjörnuna og var því mikið í húfi fyrir bæði lið.

25 mínútna töf var á byrjun leiksins því að Jón Guðmundsson sem að átti að dæma leikinn hrasaði í hálkunni fyrir utan Icelandic Glacial höllina og var ekki við nægilega góða heilsu eftir fallið til að dæma leikinn, það þurfti því að ræsa út annann dómara og fengu liðin lengri upphitun á meðan beðið var eftir honum. Óskum við Jóni góðs bata.

 

En leikurinn fór fjörlega af stað og voru bæði lið nokkuð föst fyrir í byrjun leiks. Fyrsti leikhluti var mjög jafn og var staðan 17-17 að honum loknum. 

 

Stjörnumenn urðu fyrir missi á lokasekúndu fyrsta leikhluta þegar að Justin Shouse fékk skurð á hendina eftir að hafa lent á auglýsingaskilti frá Samherja. Með því var þáttöku hans í leiknum lokið en honum var ekið upp á slysó og vonandi að þetta sé ekki alvarlegt. 

 

Stjörnumenn fóru að síga fram úr Þórsurum þegar að líða tók á annann leikhluta, stór partur af því var Alonzo Coleman sem að var að fara illa með Þórsara en hann var kominn með 21 stig í hálfleik þ.á.m. seinustu stig hálfleiksins sem hann gerði með því að hitta frá miðju. Hálfleikstölur 49-41 fyrir Stjörnunni. 

 

Stjörnumenn voru áfram með yfirhöndina í þriðja leikhluta en Þórsarar kláruðu leikhlutann frábærlega og náðu minnka muninn í 67-69 áður en leikhlutanum lauk. 

 

Stjarnan náði fljótlega 8 stiga forskoti í fjórða leikhluta en Þórsarar tóku nokkrum sinnum góð áhlaup en Stjörnumenn hleyptu þeim þó ekki fram úr sér. Fór svo að leikurinn endaði með 94-87 fyrir Stjörnuna og halda þeir því þriðja sæti deildarinnar. 

 

Alonzo Coleman var vafalaust maður leiksins með 41 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar en Þórsarar áttu engin svör við honum. Einnig áttu þeir Tómas Heiðar Tómasson og Tómas Þórður Hilmarsson fínan leik fyrir Stjörnuna. 
Hjá Þór  átti Vance Hall prýðisleik og Grétar Ingi Erlendsson drjúgur á sóknarhelmingnum. 

 

Texti: Vilhjálmur Björnsson

Mynd: Davíð Þór Guðlaugsson

Fréttir
- Auglýsing -