spot_img
HomeFréttirSæmilegar sóknir en veglegar varnir

Sæmilegar sóknir en veglegar varnir

Skagamenn tóku á kvöld á móti Breiðablik í frestaðaleiknum svokallaða.  Mikið var undir en liðin eru í hörku keppni um sæti í úrslitakeppninni.  Hjá ÍA lögðust svo ofan á þetta tilfinningar þar sem Sean Tate í liði ÍA missti góðan vin sinni í vikunni og léku Skagamenn með sorgarbönd til að votta "Beeper", eins og hann var kallaður, virðingu sína.

 

Þá að leiknum sjálfum.  Blikar skoruðu fyrstu körfu leiksins og var þar að verki góðkunningi ÍA, þeirra fyrrum leikmaður Zachary Jamarco Warren.  Skagamenn jöfnuðu svo leikinn og tóku smá áhlaup á Kópavogsliðið og komust í 12-6 en þá skoruðu Blikar 13 stig gegn 6 stigum ÍA og leiddu því með 1 stigi eftir fyrsta leikhluta, 18-19.
Blikar byrjuðu svo annan leikhluta betur, náðu mest 8 stiga forystu í stöðunni 26-34 en þá skoruðu Skagamenn 7-1 og staðan í hálfleik 33-37 fyrir Blika.

 

Í þriðja leikhluta small svo vörnin hjá ÍA en sóknin var á pari við fyrrihálfleikinn.  Það þýddi að ÍA náði tökum á leiknum, unnu fjórðunginn 15-6 og tóku forystuna í leiknum 48-43.  ÍA byrjaði svo 4. leikhlutann vel, náðu mest 13 stiga forystu í stöðunni 56-43 en Blikar voru ekki á þeim buxunum að þetta væri búið og náðu að saxa á forskot heimamanna en í stöðunni 57-52 gáfu leikmenn ÍA aftur í og lönduðu að lokum mikilvægum sigri 69-61.  Hljómar kannski eins og hálfleikstölur í Keflavík þessa dagana en lokatölur á Akranesi voru það.

 

Það sem skók sigurinn hjá ÍA í kvöld var vörnin.  Skagamenn vissu hver væri mættur í húsið en Zachary skoraði 62 stig fyrir ÍA 7. mars 2014.  Þannig að dagskiptunin var vörn vörn vörn og það gekk eftir þótt Warren hafi verið stigahæstur í liði Breiðabliks með 14 stig ásamt Snorra Vignissyni.  Hjá ÍA átti Sean Tate enn einn stórleikinn en hann skoraði 30 af 69 stigum ÍA auk þess að fefa 4 stoðsendingar, taka 4 fráköst og stela 3 boltum.  Ólíkt síðustu leikjum voru það ekki stórumennirnir í ÍA sem stigu upp með Sean heldur var þetta sigur litlu mannanna og framlag Magnúsar Bjarka í leikinn með varnarvinnu sinni ásamt Sean og Áskels, af öðrum ólöstuðum en allt liðið var að spila hörku vörn. Hjá Blikum var vörnin einnig mjög góð en sóknin sveik þá í kvöld.

 

Eftir leikinn eru Skagamenn áfram í 5. sæti deildarinnar nú með 16 stig með 4ra stiga forskot á Blika sem sitja enn í 7. sæti með 12 stig.  Þess ber þó að geta að það er nóg eftir af deildinni og ljóst að baráttan um sæti í úrslitakeppninni mun halda áfram þá 5 leiki sem eftir eru af deildarkeppninni.

 

Mynd: Sean og Fannar en ÍA léku með sorgarbönd í virðingarskyni við félaga Sean sem féll frá í vikunni langt fyrir aldur fram.  Myndina tók Jónas H. Ottósson 

 

ÍA-Breiðablik 69-61 (18-19, 15-18, 15-6, 21-18)
ÍA: Sean Wesley Tate 30/5 fráköst, Fannar Freyr Helgason 8/10 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 7/10 fráköst/5 stoðsendingar, Áskell Jónsson 6/6 fráköst, Erlendur Þór Ottesen 6, Magnús Bjarki Guðmundsson 5, Ómar Örn Helgason 4, Steinar Aronsson 3, Þorsteinn Helgason 0, Ásbjörn Baldvinsson 0, Birkir Guðjónsson 0, Jón Rúnar Baldvinsson 0. 
Breiðablik: Snorri Vignisson 14/7 fráköst, Zachary Jamarco Warren 14/7 fráköst, Rúnar Ingi Erlingsson 13/4 fráköst, Helgi Björn Einarsson 6/5 fráköst, Snjólfur Björnsson 5/4 fráköst, Sveinbjörn Jóhannesson 4, Breki Gylfason 2/4 fráköst, Egill Vignisson 2, Ragnar Jósef Ragnarsson 1, Matthías Örn Karelsson 0, Þröstur Kristinsson 0, Bjarni Steinn Eiríksson 0. 
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Steinar Orri Sigurðsson 

Fréttir
- Auglýsing -