spot_img
HomeFréttirPalmer: Fer bara alltaf í borgara til Svenna Davíðs

Palmer: Fer bara alltaf í borgara til Svenna Davíðs

Bikarmeistarar Grindavíkur mæta Snæfelli í bikarúrslitum meistaraflokks kvenna í dag. Grindavík þekkir tilfinninguna að halda á bikarnum en hann hefur ítrekað runnið úr greipum þeirra frá Stykkishólmi. Karfan.is settist niður með þeim Whitney Frazier hjá Grindavík og Hayden Palmer hjá Snæfelli og ræddi leikinn í dag og dvölina þeirra hér á Íslandi.

 

Hvernig er stemningin í liðinu fyrir leikinn?

Frazier: Bara mjög spennt. Fyrsta skiptið hérna með liðinu og Snæfell er stórt lið. Við erum bara heppnar að vera komnar svona langt. 

Palmer: Við erum bara mjög spenntar. Við höfum heyrt að það komi margir stuðningsmenn í Höllina og þetta séu skemmtilegir leikir. Snæfell hefur verið að eltast lengi við bikarinn en ekki náð árangri undanfarin ár. Liðsfélagarnir eru mjög hungraðir í bikarinn, svo ég er bara spennt.

 

Eruð þið sjálfar klárar í leikinn?

Palmer:  Maður verður bara að mæta klár í leikinn. Alltaf í svona útsláttarleikjum. Maður fær ekkert annað tækifæri. Við þurfum bara að vera einbeittar og vinna saman að þessu. Líka mikilvægt fyrir okkur að missa okkur ekki í spennunni í kringum leikinn, heldur einblína að spila þennan leik eins og alla hina. 

Frazier: Bara mikilvægt að gleyma sér ekki í "hæpinu" og muna bara að spila leikinn. 

 

Hvernig hefur dvölin á Íslandi verið fyrir ykkur?

Frazier: Spennandi. Mjög ólíkt því sem maður er vanur. Maturinn er æðislegur. Finnst fiskurinn bestur. Að vera nálægt hafinu er líka mögnuð upplifun. 

 

Hefur Frazier farið út á hafið?

Frazier: Nei, ekki enn. Hlakka samt mjög til að fara í siglingu.

Palmer: Þetta er búið að vera frábær upplifun. Ég er í aðeins minni bæ þarna í "Stikkí". Það er bara fínt. Þá getur maður einbeitt sér meira að leiknum. Ég þjálfa yngri stelpur þarna í bænum. Þéttskipaður dagur þar sem ég lyfti á morgnana, þjálfa stelpurnar og fer svo sjálf á æfingu um kvöldið. 

 

Fullt af góðum veitingastöðum á Stykkishólmi. Hefur Palmer prófað eitthvað af þeim?

Palmer: Nei, ég fer alltaf bara á Skúrinn hans Svenna. Allt gott þar.

 

Mynd: Hayden Denise Palmer og Whitney Frazier á kynningu KKÍ fyrir bikarúrslitin (JBÓ)

Fréttir
- Auglýsing -